Knattspyrnuvöllur Þróttar stendur á lóðinni í Laugardal sem borgaryfirvöld áforma að byggja á nýjan safnskóla fyrir nemendur á unglingastigi, en völlurinn er á svokölluðum „þríhyrningi“ sem er á milli Skautahallarinnar og félagsheimilis Þróttar.
„Þetta svæði, sem við köllum í dag Miðheima, erum við með samning um frá 1996 og gildir svo lengi sem Þróttur er með starfsemi í Laugardalnum,“ segir Jón Hafsteinn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Þróttar, í samtali við Morgunblaðið.
Svo sem frá hefur verið greint hefur ákvörðun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, um að hætta við að reisa viðbyggingar við skólana þrjá sem fyrir eru í hverfinu en byggja þess í stað safnskóla fyrir börn á unglingastigi, verið umdeild og hafa foreldrar barna í skólunum þremur; Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla og Langholtsskóla, mótmælt þeim harðlega.
Gert er ráð fyrir því að safnskólinn verði tekinn í notkun árið 2030.
Jón Hafsteinn segir að ef koma eigi til einhverjar breytingar á íþróttaaðstöðu félagsins í Laugardal verði að nást samkomulag um það við félagið.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag