RS-vírus faraldurinn fer af stað af miklum krafti þennan veturinn og er þung staða á Barnaspítala Hringsins vegna þessa. Mörg ung börn hafa veikst alvarlega og þurft að leggjast inn og sum þurft að fara á gjörgæslu. Flest barnanna eru yngri en þriggja mánaða, en börn allt upp í tveggja ára hafa þó þurft að leggjast inn.
Þetta segir Valtýr Stefánsson Thors, yfirlæknir barnalækninga á barnaspítalanum, í samtali við mbl.is. Tilfinning hans er sú að meira sé um alvarleg veikindi nú af völdum RS-veirunnar en í hefðbundnu árferði.
Hægt er að gefa börnum mótefni og einnig bólusetja barnshafandi konur gegn veirunni og draga þannig úr alvarlegum veikindum ungra barna. Víða í Evrópu eru slíkar mótefnameðferðir viðhafðar, en ekki hefur verið farið í slíkar aðgerðir hér á landi. Sóttvarnayfirvöld hér hafa þó sýnt því áhuga, að sögn Valtýs.
Mótefnameðferðir af þessu tagi geti fækkað innlögnum um 80 prósent og dregið úr alvarlegum veikindum.
„Það sem er nýtt og við höfum í vopnabúrinu eru tvenns konar fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er bóluefni fyrir barnshafandi konur sem þær geta þá fengið á seinni hluta meðgöngu og það veitir þá barninu vernd í tvo til þrjá mánuði, sem er mesti áhættuþátturinn. En ver barnið ekki mikið lengur en það.
Svo er það mótefnameðferð eða fyrirbyggjandi aðgerð, sem er ekki bólusetning í ströngum skilningi, heldur er mótefni gefið í einni sprautu og það er þá til staðar í allt að níu mánuði hjá barninu og veitir þannig vörn gegn alvarlegum veikindum, en kemur ekki í veg fyrir sýkingu.“
Valtýr segir hægt að útfæra mótefnameðferðina með ýmis konar hætti, en sumar þjóðir hafi ákveðið að veita öllum nýfæddum börnum slíka meðferð.
„Það hefur gefið ótrúlega góða raun. Í þessum löndum sést það að álagið á þessi börn, fjölskyldurnar og heilbrigðisstofnanirnar er miklu minna. Innlögnum fækkar um 80 prósent og alvarlegum veikindum sem ekki þurfa innlögn fækkar um 80 prósent,“ segir Valtýr.
„Þegar maður sér þetta á sama tíma og maður er hérna í storminum núna, og vitum að þetta hefur verið svona áður og verður svona aftur, en erum með eitthvað sem við vitum að virkar svona vel, þá erum við mjög spennt fyrir því að þetta yrði tekið upp hérna á Íslandi.“
Hann segir vandamálið fyrst og fremst vera hve dýr mótefnameðferðin. Þá hafi eftirspurnin verið töluvert umfram framleiðslugetu enn sem komið er. Það ætti hins vegar að vera komið í betra horf fyrir næsta vetur.
„Þetta er ótrúlega spennandi og myndi breyta landslaginu yfir þennan vetrartíma mjög. Það styttist í að inflúensan fari á flug og oft ægir þessu öllu saman. Það myndi breyta heilmiklu ef þetta færi í gang hérna.“
Langlíklegast að börn undir sex mánaða þurfi að leggjast inn eftir að hafa veikst af vírusnum, en Valtýr segir þó börn allt upp í tveggja ára geti orðið svo veik að þau þurfi að leggjast inn. „Þetta er ekki bara sjúkdómur yngstu barnanna.“
Þá geta börn sem veikjast af RS-vírusnum glímt við eftirköst vegna veikindanna árum saman.
„Það er margt sem bendir til þess að börn sem fá RS snemma á ævinni, að þau séu líklegri til þess að þurfa pústmeðferð og hugsanlega sýklalyf og sé viðkvæmari.“
Valtýr segir því til mikils að vinna að hefja fyrirbyggjandi aðgerðir gegn RS-vírusnum hér á landi.