Hætta umfangsmikilli leit

Ekki hefur sést til Áslaugar Helgu síðan á sunnudag.
Ekki hefur sést til Áslaugar Helgu síðan á sunnudag. Ljósmynd/Aðsend

Leitin að Áslaugu Helgu B. Traustadóttur, sem fór að heiman á Tálknafirði á sunnudag, hefur enn ekki borið árangur. Hefur umfangsmikilli leit verið hætt um sinn.

Ekkert bendir til þess að hvarf hennar hafi borið að með saknæmum hætti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Bifreið hennar fannst mannlaus á veginum rétt utan við þorpið á Tálknafirði, skammt frá flæðamálinu. Leitin hefur verið mjög umfangsmikil og nákvæm en henni hefur nú verið hætt um sinn. Leitinni verður fram haldið síðar með minna sniði.

Um 100 manns unnu að leitinni

„Svæðisstjórn björgunarsveitanna á svæði 6 og lögreglan á Vestfjörðum vilja færa þakkir til allra viðbragðsaðila á Vestfjörðum sem tóku þátt í leitaraðgerðunum. En ekki síður er þeim viðbragðsaðilum sem komu lengra að færðar sérstakar þakkir. Þá er forsvarsfólki fyrirtækja á svæðinu færðar þakkir fyrir mikilvægt framlag, t.d. í formi vinnuframlags starfsfólks, láni á bátum, búnaði, húsnæði, hráefni til matargerðar og fl.“

Fram kemur að slysavarnakonur á svæðinu hafi unnið mikilvægt verkefni, en það var að sinna matseld fyrir alla þátttakendur leitarinnar. Um 100 manns hafa komið að verkefninu. 

„Lögreglan á Vestfjörðum hefur verið í sambandi við fjölskyldu Áslaugar undanfarna daga og upplýst um framvindu aðgerðanna. Hugur viðbragðsaðila er hjá ástvinum Áslaugar og öðrum ættingjum,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert