„Ég hef ekkert á móti uppbyggingu en menn geta ekki bara þjösnast einhvern veginn áfram. Þetta verður að fara í réttan farveg,“ segir Svavar L. Torfason, fulltrúi í skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra.
Svavar hefur gert athugasemdir við að eigendur ferðaþjónustu hafi reist kúluhús í leyfisleysi á jörð í sveitarfélaginu og byrjað að selja þar aðgang. Eftir að málið komst í hámæli nýverið var hætt að bóka gesti í kúluhúsin.
Um er að ræða jörðina Stekkatún 1 sem er við Þykkvabæjarveg, skammt frá Hellu. Hluti jarðarinnar er skilgreindur sem verslunar- og þjónustusvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þar voru reist 12 kúluhús sem leigð eru út undir nafninu Aurora Igloo. Í haust bættust svo fleiri hús við en þau eru reist á hluta jarðarinnar sem skilgreindur er sem landbúnaðarsvæði og því er um óleyfisframkvæmd að ræða. Nágrannar sem Morgunblaðið ræddi við segja að húsin séu 15 talsins og óttast þeir ónæði sem af þeim skapist. Engin kynning hafi farið fram.
„Það komu drög að þessum áformum inn í skipulagsnefndina. Þar var þeim sagt að fara sömu leið og aðrir í deiliskipulagi en allt í einu spretta upp 15 kúlur og klósetthús með þeim. Þetta er allt í óleyfi. Ég spurði hvort ekki ætti það sama að ganga yfir alla en það þóttist enginn vita neitt,“ segir Svavar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag