Eigendur hundanna Lunu og Stich lofa 100 þúsund króna fundarlaunum ef einhverjum tekst að hafa uppi á hundunum. Þeir hafa verið týndir eftir að þeir sluppu úr heimahúsi á Djúpavogi á mánudag.
Í dag er mjög kalt og erfitt að leita að hundunum og að sögn Ólafar Rúnar Stefánsdóttur eru aðstandendur opnir fyrir öllum möguleikum sem gætu skýrt það hvar hundarnir eru niðurkomnir. Barst þeim ábending um að sést hefði til tveggja hunda í Reykjavík en þeim fannst það afar ósennilegt.
„Núna er hvasst og erfiðar aðstæður til að leita. En við erum núna að keyra á milli húsa til að kanna hvort þeir hafi leitað sér skjóls í sveitunum. Því þeir geta verið liggjandi einhvers staðar og þora ekki að koma upp fyrr en maður er kominn alveg að þeim,“ segir Ólöf Rún.
Þau hafa síðustu daga helst einblínt að leitarsvæði í Álftafirði en ekkert hefur fundist þar.
„Við viljum bara biðja fólk um að hafa augun opin því við vitum ekki hvað þeir hafa farið langt fyrstu tvo sólarhringana því þá var svo gott veður. Við settum fundarlaun bara til að virkja fólk, hvort sem það er á Höfn, Kirkjubæjarklaustri, Freysnesi, Egilsstöðum eða annað,“ segir Ólöf.