Ökumaður án réttinda reyndi að ljúga til nafns

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó nokkur innbrot voru framin á höfuðborgarsvæðinu í dag. Brotist var inn í fjóra bíla og tvær geymslur. Tveir ökumenn voru stöðvaðir án ökuréttinda. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Tilkynnt var um innbrot í þrjá bíla í bílastæðahúsi í miðbænum og þá var brotist inn í bifreið í hverfi 105. Málin eru öll til rannsóknar hjá lögreglu.

Hljóðmengun í miðbænum

Í miðbænum voru tvö útköll vegna hávaða. Var meðal annars tilkynnt um hátalara utandyra, fyrir utan skemmtistað, sem væri að halda vöku fyrir fólki í miðbænum. Lögregla fór á vettvang og fékk starfsfólk til þess að taka hátalarann úr sambandi sem þau gerðu samstundis.

Einnig var tilkynnt um tónlistarhávaða innandyra um miðja nótt í miðbænum. Húsráðandi lofaði að lækka.

Tvö innbrot í geymslu voru framin, annað þeirra í miðbænum og hitt í Hafnarfirði. Bæði mál eru til rannsóknar. 

Tveir án ökuréttinda

Í Garðabæ var ökumaður stöðvaður við almennt umferðareftirlit. Ökumaður reyndi að ljúga um eigið nafn og telur lögreglan að líklegasta útskýringin á því sé sú að hann var án ökuréttinda. 

Í Grafarvoginum var tilkynnt um rásandi aksturslag ökumanns. Lögreglan stöðvaði hann skömmu seinna og var hann handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. 

„Hann reyndist einnig sviptur ökuréttindum. Hann var fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku. Að því loknu var hann frjáls ferða sinna,“ segir í dagbókarfærslu lögreglu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert