Sagðist ætla að „kála“ Hafdísi

Frá Vopnafirði. Maðurinn er grunaður um að hafa beitt járnkarli …
Frá Vopnafirði. Maðurinn er grunaður um að hafa beitt járnkarli til að kyrkja Hafdísi og reynt að stinga hana í kviðinn. Ljósmynd/Aðsend

Karlmaður sem réðst á fyrr­ver­andi sam­býl­is­konu sína á Vopnafirði í októ­ber er sterklega grunaður um tilraun til manndráps, eða eftir atvikum sérstaklega hættulega líkamsárás með járnkarli.

Vitni á vettvangi segir að karlmaðurinn hafi sagt við sig að hann hafi ætlað að „kála henni“.

Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum.

Héraðsdómur hafði úrskurðað manninn í gæsluvarðhald til 10. janúar en þeim úrskurði var skotið til Landsréttar. Landsréttur hefur úrskurðað hann í gæsluvarðhald til allt að 7. janúar.

Vitni greinir frá orðaskiptum við manninn

Hafdís Bára Óskarsdóttir, brotaþolinn, sagði manninn hafa sagst ætla að „klára þetta bara“ áður en hann réðst á hana, að því er fram kemur í greinargerð héraðssaksóknara.

Greindi vitni einnig frá því að maðurinn hefði sagt rétt eftir atvikið að hann hefði ætlað að „kála henni“, er hann var spurður hvað honum gekk til. 

Karlmaðurinn viðurkenndi á vettvangi að hann hefði lent í deilum við Hafdísi og ráðist að henni.

Grunaður um að hafa reynt að kyrkja hana

Karlmaðurinn er sterklega grunaður um að hafa veist að Hafdísi með járnkarli, reynt að stinga hana í kviðinn og reynt að kyrkja hana með járnkarlinum.

Í áverkavottorði frá heilsugæslunni kemur fram að brotaþoli sé með áverka á hálsi, bólgu og roði eftir áhald sem beitt var, sár í hægri lófa sem blæddi úr.

Frá 19. október hefur karlmaðurinn sætt gæsluvarðhaldi og vistun á viðeigandi stofnun.

Óttaðist um líf sitt

Hafdís steig fram í Kastljósi RÚV í vikunni þar sem hún sagði manninn hafa ráðist á sig inni í skemmu fyrir utan heimili hennar.

„Hann teyg­ir sig í járnkall­inn og ræðst á mig. Það fyrsta sem hann ger­ir er að reyna stinga mig í kviðinn, tvisvar eða þris­var sinn­um. Hann nær að hrinda mér í gólfið og sest ofan á mig og set­ur járn­karl­inn yfir háls­inn á mér og þrýst­ir bara.“

Hún sagðist hafa ótt­ast um líf sitt og reynt að fá mann­inn til að hugsa um syni henn­ar en þann yngri eiga þau sam­an.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert