Stakk samfanga sinn ítrekað með sporjárni

Ingólfur Kjartansson hefur verið sakfelldur fyrir ýmisleg brot á Litla-Hrauni.
Ingólfur Kjartansson hefur verið sakfelldur fyrir ýmisleg brot á Litla-Hrauni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingólfur Kjartansson, sem afplánar átta ára dóm á Litla-Hrauni fyrir að hafa skotið mann árið 2022, hefur verið dæmdur til átta ára viðbótarfangelsisvistar fyrir að hafa meðal annars stungið samfanga sinn með sporjárni átta sinnum.

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Suðurlands.

Ingólfur var í nóvember árið 2022 dæmdur í átta ára fang­elsi fyr­ir til­raun til mann­dráps og vopna­laga­brot með því að hafa aðfaranótt sunnu­dags­ins 13. fe­brú­ar 2022 skotið mann í bíla­stæðahúsi í Reykja­vík.

Innan veggja fangelsisins er hann þó aftur kominn í kast við lögin fyrir margítrekuð ofbeldisbrot, en Ingólfur er aðeins 22 ára gamall.

Margvísleg brot

Hefur hann verið sakfelldur fyrir líkamsárás þann 20. janúar þar sem brotaþoli fékk heilahristing, fyrir brot gegn valdstjórninni þann 4. september eftir að hafa sparkað í hné lögreglumanns í fangelsi, fyrir brot gegn valdstjórninni 3. nóvember fyrir að hafa slegið fangavörð, hrækt á fangavörð og hótað fangavörðum lífláti og líkamsmeiðingum.

Þyngsta dóminn hlaut hann fyrir sérlega hættulega líkamsárás með því að hafa, fimmtudaginn 23. nóvember 2023, veist fyrirvaralaust með ofbeldi að samfanga utandyra á lóð fangelsisins og stungið hann ítrekað í efri hluta líkama með sporjárni, með 8,5 cm löngu blaði.

Samfanginn hlaut átta stungusár; við brjóstbein, í handarkrika, tvö aftanvert á vinstri öxl, ofarlega á herðablaði, á aftanverðum brjóstkassa neðan við herðablað, á mjaðmakambi vinstra megin, neðan við og utanvert á vinstri olnboga auk grunnrar rispu við neðstu rif vinstra megin.

Af þessu hlaut brotaþolinn einnig gat á lunga með samfalli.

Ekki tilraun til manndráps

Ingólfur játaði háttsemi sína en neitaði því að árásin með sporjárninu hefði verið tilraun til manndráps. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að sakfella hann fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, en ekki fyrir tilraun til manndráps.

Læknirinn sem meðhöndlaði brotaþola bar vitni. 

Aðspurður sagði hann hugsanlegt að áverkar brotaþola hefðu geta orðið lífshættulegir ef hann hefði ekki komist undir læknishendur.

„Það verði að teljast vera lífshættulegur áverki að fá stungu í brjósthol með samfallið lunga,“ segir í dómnum en þó tekið fram að ekki sé hægt að slá því föstu að brotaþoli hefði látist án aðhlynningar.

Aðeins tvö ár eru liðin síðan að Ingólfur var sakfelldur …
Aðeins tvö ár eru liðin síðan að Ingólfur var sakfelldur síðast. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í raun bara verið að sveifla sporjárninu

Ingólfur sagði í aðalmeðferð málsins að hann hefði „í raun bara verið að sveifla sporjárninu“ og ekki áttað sig á því að hann hefði stungið brotaþola fyrr en eftir á.

Dómurinn mat það sem svo að það væri fjarstæðukennt að hann vissi ekki að hann væri að stinga brotaþola.

Af upptöku megi glögglega sjá að Ingólfur lagði margsinnis til brotaþola, vitandi að hann væri með vopnið í hendi sér.

Brotaþoli hafi skotið vin hans

Þegar Ingólfur var spurður af hverju hann hefði ráðist á brotaþola kvaðst hann „ekki hafa vitað hvar hann hefði brotaþola“. Brotaþoli hafði nýverið skotið vin hans og Ingólfur kvaðst ekki vita hvort brotaþoli væri vopnaður.

Aðfaranótt fimmtu­dags­ins 2. nóv­em­ber 2023 skaut 21 árs sænskur karlmaður hann Gabrí­el Douane Boama, sem hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir líkamsárásir. Árásin á Gabríel gerðist 20 dögum fyrir árás Ingólfs á samfanga sinn innan fangelsisins.

Hins vegar neitaði Ingólfur því að atlaga hans að brotaþola hefði verið í hefndarskyni vegna þess að brotaþoli hefði skotið vin hans, en um þá skotárás liggur ekkert fyrir í gögnum málsins.

Langur brotaferill

Í dómnum var langur brotaferill Ingólfs rakinn sem hófst þegar hann var 17 ára gamall. Meðal annarra brota sem hann hefur á árum áður verið sakfelldur fyrir eru ránsbrot, vopnalagabrot, fíkniefnabrot og líkamsárásir.

Ingólfur var dæmdur til að greiða samfanganum 1,5 milljónir króna í miskabætur, öðrum brotaþola 400 þúsund krónur í miskabætur, öðrum brotaþola 300 þúsund krónur í miskabætur og sakarkostnað upp á 5,9 milljónir króna.

Einnig var honum gert að greiða tveimur mönnum í einkaréttakröfum tæplega 500 þúsund krónur á haus í málskostnað og þá er honum gert að greiða yfir fimm milljónir króna í lögfræðikostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert