Eignarhaldsfélagið Flóki Invest, sem er hluti af Aztiq samstæðunni, stofnanda og stærsta hluthafa Alvotech og fasteignafélagið Heimar hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu og starfrækslu allt að þriggja nýrra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu.
Markmiðið er að hver leikskóli taki á móti 50-100 börnum, að því er segir í tilkynningu frá Alvotech og Heimum.
Þá segir, að staðsetning skólanna verði ákveðin í samráði við sveitarfélög og hagsmunaaðila. Markmiðið sé að hefja uppbyggingu á fyrsta ársfjórðungi 2025 og að leikskólarnir verði komnir í rekstur á næstu þremur til fimm árum.
Enn fremur segir, að Heimar muni annast uppbyggingu og rekstur fasteignanna sem hýsa leikskólana, en Flóki Invest muni afla rekstrarleyfa, semja við sveitarfélög og annast rekstur leikskólanna.
„Alvotech, eins og mörg önnur fyrirtæki, stendur frammi fyrir því að skortur á leikskólamöguleikum hefur áhrif á starfsfólk félagsins. Um 850 manns starfa fyrir Alvotech í höfuðstöðvum félagsins í Vatnsmýri. Þar af eru um 300 starfsmenn með börn í leikskóla, stærstur hluti þeirra í Reykjavík.
Eftir ítarlega greiningu komst Alvotech að þeirri niðurstöðu að besta lausnin væri að stuðla að stofnun fleiri leikskóla. Þetta gerir fyrirtækinu kleift að bæta aðstöðu starfsmanna með börn á leikskólaaldri, en verkefnið er einnig hugsað sem hluti af samfélagslegri ábyrgð og stuðningur í verki við nærumhverfið. Aukið framboð af leikskólaplássum getur leyst sameiginlegan vanda og léttir undir með foreldrum í viðkomandi hverfum,“ segir í tilkynningunni.
Samkomulagið var undirritað af Jóhanni G. Jóhannssyni, eins af stofnendum Flóka Invest og Alvotech og Halldóri Benjamín Þorbergssyni, forstjóra Heima.