Sýnir að kynbundið ofbeldi fer ekkert minnkandi

Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir nýlegan dóm sem gekk …
Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir nýlegan dóm sem gekk í Héraðsdómi Norðurlands Eystra, vera tilefni til að rýna í verklag mála um kynbundið heimilisofbeldi. Samsett mynd

Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir niðurstöðu dóms sem gekk nýlega í Héraðsdómi Norðurlands eystra um stórfellda líkamsárás og heimilisofbeldisbrot, vera vonbrigði.

Ekki litið á heimilisofbeldi jafn alvarlegum augum

Linda segir dóminn sýna að kynbundið ofbeldi virðist ekki vera að minnka hér á landi, þrátt fyrir aukna fræðslu og meðvitund. Þá sýni dómurinn líka að ekki sé litið á heimilisofbeldi jafn alvarlegum augum og annað ofbeldi. 

Maðurinn var dæmdur fyrir brot gegn 2.mgr. 218.gr. almennra hegningarlaga, þ.e. fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða, svo og fyrir brot gegn 218.gr. b sömu laga vegna fyrra heimilisofbeldisbrots gegn brotaþola. 

Hann varð sambýliskonu sinni og barnsmóður að bana í apríl, en í dóminum kemur fram að hann hafi beitt sambýliskonu sína margs konar ofbeldi í aðdraganda andlátsins. 

Telur dóminn vera rangan

Linda segist telja dóminn vera rangan og segist ekki skilja hvers vegna maðurinn var dæmdur fyrir líkamsárás en ekki manndráp.

„Það er ljóst af áverkum brotaþola í málinu að það var mjög einbeittur brotavilji til staðar, og okkur finnst því furðulegt að þetta sé skoðað ekki skoðað sem manndráp skv. 211.gr. hegningarlaga,“ segir Linda í samtali við mbl.is. 

„Þegar maður les dóminn sér maður að það er greinilega einbeittur vilji til staðar, okkur finnst því líka skrýtið að refsiramminn fyrir stórfellda líkamsárás sem leiðir til dauða sé ekki fullnýttur, auk þess sem að refsiþyngingarheimildin í 3.mgr. 70.gr. hegningarlaga er ekki nýtt í málinu vegna náinna tengsla ákærða og brotaþola, þótt þau tengsl séu klárlega til staðar.“

Vanþekking á málaflokknum

Þá segir Linda dóminn sýna að vanþekking sé til staðar í málaferlinu á stöðu brotaþola í málum sem þessum. 

„Í dómnum er meðal annars talað um að hún fari til baka sökum meðvirkni, það gefur til kynna vanþekkingu á málaflokknum, og vanþekkingu á eðli kynbundins ofbeldis og ofbeldishringnum. Það er ljóst að það þarf meiri fræðslu og betri innsýn þeirra aðila sem eru að vinna að þessum málum um hvað heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi sé.“

„Það væri alveg gott fyrir kerfið að rýna í þetta mál til að geta gert betur.“

Þá bendir hún meðal annars á að maðurinn notaði í þessu tilfelli algenga aðferð geranda til að einangra brotaþola, að flytja mikið milli staða, í þessu tilfelli á milli sveitarfélaga, til að rjúfa tengsl sem brotaþola kunni að hafa myndað á hverjum stað. 

„Það er vert að skoða það, hvort stjórnvöld séu til dæmis að fylgjast með þessu, sem kemur oft fyrir í málum sem þessum. Það þurfa allir aðilar, hvernig sem þeir koma að svona málum, að skoða hvort þeir séu að gera eins vel og hægt er. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert