Starfshópur um úrbætur á úrræðum og þjónustu vegna einstaklinga sem þurfa að sæta sérstökum öryggisráðstöfunum telur nauðsynlegt að byggður verði miðlægur þjónustukjarni.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Starfshópurinn er skipaður fulltrúum frá alls sjö ráðuneytum og í dag kynnti hann fyrir ríkisstjórn minnisblað.
Í minnisblaðinu eru tillögur til úrbóta fyrir einstaklinga sem hafa brotið af sér en eru ýmist dæmdir sakhæfir og hætta talin stafa af þeim eftir afplánun, dæmdir ósakhæfir, eða talið að refsing muni ekki bera árangur og sæta því öryggisráðstöfunum og viðeigandi meðferð.
Starfshópurinn telur nauðsynlegt að samhæfa þjónustu og úrræði vegna þessara einstaklinga en að málum kemur fjöldi ráðuneyta auk sveitarfélaga.
„Áskoranir stjórnvalda snúa ekki síst að ómarkvissri þjónustu og skorti á búsetuúrræðum fyrir einstaklinga sem hafa fengið dóm eða úrskurð um öryggisgæslu. Þá er talin þörf á skýrari ábyrgð og lagaumgjörð um framkvæmd vægari öryggisráðstafana, meðal annars til að tryggja réttaröryggi eftir að afplánun í fangelsi lýkur,“ segir í tilkynningunni.
Til að bregðast við framangreindu gerir starfshópurinn eftirfarandi tillögur:
Hópurinn áréttar einnig að breyta þurfi fyrirkomulagi þjónustu við börn með fjölþættan vanda þannig að rétt úrræði séu fyrir hendi þegar þeirra er þörf.
„Rannsóknir sýni fram á að með markvissri snemmtækri íhlutun sé hægt að koma í veg fyrir fjölgun einstaklinga sem þurfa á öryggisráðstöfunum að halda á fullorðinsárum,“ segir í tilkynningunni.