„Ég hef aldrei ætlað að verða neitt annað“

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson hlaut Gerðarverðlaunin í dag.
Helgi Hjaltalín Eyjólfsson hlaut Gerðarverðlaunin í dag. mbl.is/Eyþór

„Maður er lítil sál sem finnst öll vegtylla góð svo það er þakkarvert að manni sé hampað. Það er alltaf gott þegar einhver tekur eftir því sem maður er að gera. Ég er því fyrst og fremst mjög þakklátur,“ segir Helgi Hjaltalín Eyjólfsson, myndlistarmaður og handhafi Gerðarverðlaunanna sem veitt voru í fimmta sinn í dag í Gerðarsafni í Kópavogi.

Eru þau til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara og veitt listamanni fyrir ríkulegt framlag til höggmynda- og rýmislistar á Íslandi. Áður hafa þau Rósa Gísladóttir, Þór Vigfússon, Finnbogi Pétursson og Ragna Róbertsdóttir hlotið verðlaunin. 

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson eftir að honum voru veitt Gerðarverðlaunin í …
Helgi Hjaltalín Eyjólfsson eftir að honum voru veitt Gerðarverðlaunin í dag. Ljósmynd/Aðsend

Húmorískur undirtónn

Helgi útskrifaðist frá listasviði Fjölbrautaskólans í Breiðholti 1988. Að því námi loknu lá leiðin í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1988-1991, Kunstakademie Dusseldorf 1991-1992, AKI í Hollandi 1992-1994 og San Francisco Art Institute 1994-1995. Þá hefur Helgi verið virkur í sýningarhaldi á Íslandi sem og erlendis síðan á námsárunum en hann rak sýningarrýmið 20 fermetra um hríð og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist, svo sem stjórnarsetu í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og í Nýlistasafninu, verið í sýningarnefndum og starfað við kennslu.

Í umsögn dómnefndar í ár segir að verk Helga séu óður til handverksins og vangaveltur um samfélag samtímans.

„Verkin bera gjarnan pólitískan keim og ávarpa samfélagsleg málefni með húmorískum undirtón. Haganlega unnið handverk spilar stóran þátt í skúlptúrum Helga með viðarverkum, sem vísa í heimaframleiðslu á ýmsum nytjahlutum með ólíkum táknum, svo sem klukkur, vopn og gervifætur. Verk hans eru gjarnan leikur að skala þar sem fundnar myndir eru stækkaðar upp úr öllu valdi á meðan aðrir hlutir minnka niður í míníatúra.“

„Fólkið mitt er að stórum hluta iðnaðarmenn svo ég kem …
„Fólkið mitt er að stórum hluta iðnaðarmenn svo ég kem svolítið úr þeim kúltúr að maður eigi að vinna vinnuna vel og vanda sig. Þaðan kemur þetta element að reyna að koma hugsun og tilfinningu í efni.“ mbl.is/Eyþór

Myndlistin á vinninginn

Inntur eftir því hvernig hann lýsi eigin verkum segist Helgi fyrst og fremst trúa á hug og hönd. 

„Þetta er svona gamaldags verkfæri, að hugsa hluti og vinna þá svo í efni. Ég er búin að prufa hina og þessa miðla og láta gera hluti fyrir mig en það endar alltaf með því að ég þarf einhvern veginn að koma við og gera þetta sjálfur, vinna hlutina í höndunum. Fólkið mitt er að stórum hluta iðnaðarmenn svo ég kem svolítið úr þeim kúltúr að maður eigi að vinna vinnuna vel og vanda sig. Þaðan kemur þetta element að reyna að koma hugsun og tilfinningu í efni.“

Aðspurður í framhaldinu svarar hann því til að hann sæki innblásturinn víða. 

„Ég er áhugamaður um margt en myndlistin er alltaf stöðugur innblástur. Nú er ég til dæmis með hérna fyrir framan mig nýlega bók sem Listasafnið gaf út um 140 verk og það að fletta í gegnum hana er mikil næring. Ég hef líka alltaf haft mikinn áhuga á alþjóðastjórnmálum og sögu, þar er ég enginn spekingur en maður dýfir tánum í hitt og þetta og skoðar. Innblásturinn kemur því úr mörgum áttum,“ útskýrir hann og tekur fram í kjölfarið að hann hafi ávallt vitað að það myndi liggja fyrir honum að feta listabrautina. 

„Ég hef aldrei ætlað að verða neitt annað. Ég hafði engan áhuga á því að verða slökkviliðsmaður eða læknir. Ég hef reynt að vera hitt og þetta en myndlistin er einhver strengur sem ég kemst aldrei mjög langt frá.“

Nánar verður rætt við Helga á menningarsíðum Morgunblaðsins á mánudaginn, þann 16. desember.

„Ég hef reynt að vera hitt og þetta en myndlistin …
„Ég hef reynt að vera hitt og þetta en myndlistin er einhver strengur sem ég kemst aldrei mjög langt frá,“ segir Helgi í samtali við blaðamann. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert