Hafnarfjörður í þrívídd

Mynd tekin af þrívíddarmódeli Ólafs. Á heimasíðu hans er módelið …
Mynd tekin af þrívíddarmódeli Ólafs. Á heimasíðu hans er módelið minnkað niður í 0,25%, frumgögnin eru þeirrar stærðar að ekki er hægt að birta þau. Þrívíddarmódel/Ólafur Haraldsson

Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri Designing Reality, hefur sett saman þrívíddarmódel af Hafnarfirði.

Módelið er gert úr 200.000 drónamyndum og 4 billjónum pixla.

Ólafur hefur mikla reynslu af útbúningi þrívíddarmódela úr ljósmyndum. Hann kom við í kvikmyndageiranum, þar sem hann bjó meðal annars til bakgrunni fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþáttaraðir, áður en hann færði sig yfir í verkfræðina.

Sýndi fram á möguleikann

Ólafur hefur verið mikill talsmaður þess að svona þrívíddarmódel séu gerð fyrir þéttbýli landsins. Viðbrögðin hafa þó alltaf verið að slíkt sé ekki hægt. Það taki of langan tíma og ekki sé hreinlega hægt að fljúga drónanum eins mikið og þyrfti til að ná heilum bæjum.

Þá er nálægð við Reykjavíkurflugvöll einnig hamlandi í slíku verkefni vegna ákveðinna flugreglna sem fara þarf eftir. Til að mynda þarf að fljúga drónanum töluvert lægra en ákjósanlegt er.

Ólafur Haraldsson
Ólafur Haraldsson Ljósmynd/Aðsend

„Ég þurfti að fljúga undir mörkum, rosalega lágt, sem þýðir að ég þurfti að taka fleiri myndir,“ segir Ólafur í samtali við mbl. Hann segir flughæðina þó hafa reynst vel að lokum „Út af því að ég þurfti að fljúga svo lágt fékk ég gríðarlega mikla upplausn, 1,25 cm, sem er langt yfir því sem þarf,“

Aðspurður segir Ólafur Hafnarfjarðarbæ hafa orðið fyrir valinu vegna stærðar bæjarins og nálægðar við Reykjavíkurflugvöll. Þetta verkefni Ólafs gefur hugmynd hans því staðfestingargildi (e. proof of concept), en það var honum mikilvægt að sýna fram á að þetta væri gerlegt þrátt fyrir nálægð við flugvöllinn.

Hvar er Óli?

Við myndatökuna var Ólafur á mikilli hreyfingu um Hafnarfjörðinn og er bílinn hans, rauðan Land Cruiser, ásamt drónalendingarpalli (appelsínugulum hring) að finna á um 20 stöðum í módelinu.

Hvar er Óli?
Hvar er Óli? Ljósmynd/Ólafur Haraldsson
Hvar er Óli?
Hvar er Óli? Ljósmynd/Ólafur Haraldsson
Hvar er Óli?
Hvar er Óli? Ljósmynd/Ólafur Haraldsson

Framtíðarmöguleikar

Almennt er venjan í dag að nota hornréttar (e. orthographic) myndir við gerð loftmynda kortagrunna en þá eru myndirnar í tvívídd og þær teknar úr flugvél. Myndinni sjálfri er þá varpað niður og aðeins hliðarnar á húsunum sjáanlegar á flötu myndinni.

Verkefnið hans Ólafs fellur hins vegar undir það sem kallað er raunhornréttar (e. true orthographic) en þá eru myndirnar teknar með drónum og þeim varpað á þrívíddarmódel. Þetta segir hann framtíðina fyrir þéttbýli.

Módelið af Hafnarfirði sýnir fram á möguleikana sem slíkt býður upp á. Gögnin er til að mynda hægt að nota í mælingar, vefsjár og skipulagsmál.

Hér má sjá muninn á „True Ortho“ og „Ortho“.
Hér má sjá muninn á „True Ortho“ og „Ortho“. Ljósmynd/Ólafur Haraldsson
Hér má sjá muninn á „True Ortho“ og „Ortho“.
Hér má sjá muninn á „True Ortho“ og „Ortho“. Ljósmynd/Ólafur Haraldsson

Ekki háð stærðartakmörkum

Ólafur segir svona verkefni ekki háð stærðartakmörkum. „Ég hannaði þetta þannig að ég braut þetta bara niður, þetta er svona eins og að borða fíl. Ég hefði þess vegna getað verið með fimm dróna í einu og þá yrði þetta nánast fimm sinnum fljótlegra,“

Hann segir það sama gilda um eftirvinnsluna á gögnunum. Hún snúist bara um fjölda tölva.

Hann segir slík verkefni ekki hafa verið unnin á þennan hátt áður, en kenningin hans sé að „það skiptir ekki máli hversu stórt svæðið er og hversu mikið magn mynda,“.

„True Ortho“-mynd af öllum Hafnarfirði.
„True Ortho“-mynd af öllum Hafnarfirði. Ljósmynd/Ólafur Haraldsson

Á heimasíðu Ólafs má sjá módelið í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert