Stjarna Söndru Barilli skín skært þessa dagana og lítil börn pískra og benda á hana á almannafæri. Þau allra hugrökkustu biðja um sjálfu. Sandra Gísladóttir, sem nánast óvart tók sér eftirnafnið Barilli, segir leikferil alls ekki hafa verið á dagskrá, enda unir hún sér best sem framleiðandi og stjórnandi.
Í vinsælu þáttunum bregða fimmmenningarnir Jón Jónsson, Friðrik Dór, Aron Can, Hr. Hnetusmjör og Rúrik Gíslason á leik, en þeir leika meðlimi strákabandsins Iceguys í samnefndum þætti. Sandra hefur slegið í gegn sem hin skelegga og skemmtilega Mollý, umboðsmaður strákanna. Sandra, sem er menntuð í leiklist og leikhúsfræðum, fór létt með hlutverkið, enda með langa reynslu að baki sem hún gat nýtt sér. Hún segir Mollý svolítið líka sér; að minnsta kosti gangi þær í alveg eins fötum!
Sandra er Reykjavíkurmær, dóttir rafmagnsverkfræðings og tölvunarfræðings sem skýrir ef til vill verkvitið sem hún býr yfir. Hún er alin upp í Fram-hverfinu en er Valsari í hjarta sínu, en við komum að því síðar. Eftir menntaskólanám fór Sandra til Englands í leikhúsfræði, en skiptinemadvöl á Ítalíu hafði mikil áhrif á hana.
Sandra segir drauminn aldrei hafa beinst að leiklistinni en lífið leiddi hana inn á þær brautir.
„Ég ætlaði að verða forseti þegar ég var lítil. Ég ákvað það um fimm ára og hafði Vigdísi sem fyrirmynd. Í dag myndi ég ekki vilja vera forseti,“ segir hún og hlær.
„Ég fór í MR og komst snemma að því að mér þótti gaman að tungumálum og endaði á fornmálabraut og lærði latínu, sem var stemmning,“ segir Sandra en hún hafði áður haft brennandi áhuga á ítölsku og sótti kvöldskóla til að læra málið strax um 16 ára aldur.
„Ég fór svo í málaskóla í Flórens um sumarið og vildi ólm komast aftur út. Ég fór þá með AFS til Brescia í Lombardíuhéraði og var þar í heilt ár. Þar var ég hjá Barilli-fjölskyldunni sem var dásamlegt. Ég einsetti mér að læra ítölskuna vel. Ég var farin að hugsa á ítölsku og meira að segja tala upp úr svefni á ítölsku.“
Eftir heimkomuna festist nafnið Barilli við hana.
„Í byrjun var þetta í gríni, að ég kallaði mig Barilli. Á þessum tíma voru allir að byrja á MySpace en ég ólst upp með irkinu og þar mátti enginn koma fram undir réttu nafni. Þar voru allir að passa sig að gefa ekki of mikið upp, svo ekki yrði brotist inn hjá manni ef maður færi í frí. Í dag liggur við að fólk pósti á Facebook: „Erum á Tene, kóðinn á lyklaboxinu er …“,“ segir hún og hlær.
„En þá notaði ég nafnið Sandra Barilli til að skrá mig inn á MySpace og hélt að það skipti ekki máli. Þegar Facebook kom svo hélt ég nafninu, en eftir langa veru á samfélagsmiðlum áttaði ég mig á því að fólk héldi að ég væri hálfítölsk,“ segir hún og nefnir að hún sé Gísladóttir í þjóðskrá.
Sandra kom víða við eftir menntaskóla; lærði leiklist og leikhúsfræði í Englandi og kom svo heim og gerðist umboðsmaður hljómsveita, svo eitthvað sé nefnt. Eftir að hafa unnið um hríð hjá Öldu Music í útgáfu fór Sandra aftur út í lausamennsku, en hugur hennar stóð til að vinna meira í kvikmyndabransanum.
„Það er alltaf svo mikið að gera hjá þeim, en minna af stórum tónleikum á Íslandi. En þá kom covid“ segir hún, en hún fékk síðar verkefni við gerð Stellu Blómkvist, seríu tvö, sem skipulagsstjóri.
„Ég vissi ekkert hvað ég var að fara að gera, en ég hafði mjög gaman af því. Þaðan dróst ég inn í kvikmyndabransann og vann víða sem skipulagsstjóri í leikmyndadeild, stundum í tveimur verkefnum í einu. Í raun var ég að halda utan um peningana í leikmyndadeildinni,“ segir Sandra þegar hún er spurð hvað hafi falist í því starfi.
„Þannig að ég var að vasast mikið í fjármálum; að passa að ekki væri verið að eyða of miklu og eins að passa að fólk mætti í vinnuna, þannig að í raun varð ég um leið mannauðsstjóri því fólk leitaði svo oft til mín. Ég held að ég sé góð í þessu því ég hlusta ekki á neitt kjaftæði,“ segir Sandra og brosir.
„Ég vann bæði fyrir TrueNorth og RVK Studios en datt svo inn í það allra stærsta, True Detective, sem hálft Ísland vann í. Þar vann ég í tíu mánuði, sat tíu til tólf tíma á dag fyrir framan tölvu, að sjá um peninga. Það er langur tími,“ segir hún, en ótrúlegur fjöldi fólks vann við gerð þáttanna.
„Bara þeir sem unnu með mér í leikmyndadeildinni voru 120.“
Beint í kjölfarið á True Detective var Söndru boðin vinna við gerð þáttanna Iceguys, en tökur á fyrstu þáttaröðinni fóru fram í ágúst í fyrra.
„Ég var í langþráðu fríi í Berlín þegar það var hringt í mig. Hannes Arason hjá Atlavík spyr hvort ég sé til í að framleiða þessa seríu sem hann er að setja í gang. Ég var þá farin að sakna aðeins tónlistarbransans þannig að mér fannst það fullkomið. Og illa borgað og íslenskt,“ segir hún og hlær.
„Ég sagði eiginlega strax já. Ég átti að framleiða seríuna en Hannes bætti við í lok símtalsins að það væri líka verið að leita að leikkonu í hlutverk umboðsmanns sem ég gæti mögulega fengið. Hann sagði: „Þú hefur verið umboðsmaður, er það ekki, og ertu ekki menntuð leikkona?“ Jú, ekki gat ég neitað því, en lét hann strax vita að ég hefði aldrei leikið annað en á sviði. Hann bað mig um að taka upp prufu og svo batt ég ekkert vonir við að fá hlutverkið, enda sátt við að vera framleiðandi. Nema hvað, svo var það víst ekkert vafamál og ég fékk hlutverkið,“ segir Sandra, en þættirnir eru framleiddir og leikstýrt af áðurnefndum Hannesi Arasyni, Hannesi Þór Halldórssyni og Allan Sigurðssyni hjá fyrirtækinu Atlavík.
Grunaði þig þarna hvað þetta yrði stórt?
„Nei, ég hélt að það myndi enginn sjá þetta. Ég hafði ekkert fylgst með þessum strákum neitt en þegar við vorum í tökum í Vestmannaeyjum sá ég hvað þeir voru vinsælir. Þeir gátu ekki labbað meira en tvo metra án þess að einhver bæði um sjálfu,“ segir hún.
„Strákarnir og fólkið hjá Atlavík var alltaf að vara mig við að ég yrði þekkt andlit en ég trúði því rétt mátulega. En það er ekkert betra eða verra. Mér þykir vænt um hvað börn eru spennt fyrir þættinum og mjög krúttlegt þegar þau koma og kalla til mín „Mollý!“. En það eru ekki bara börn sem horfa á þættina, enda vorum við ekkert að gera barnaefni,“ segir Sandra og segir ómetanlegt að þættirnir nái til breiðs aldurshóps.
„Þetta er mjög skemmtileg vitleysa og allir að gera grín að sjálfum sér,“ segir Sandra.
„Ég framleiddi svo og lék í seríu tvö sem var miklu stærra verkefni en sería eitt. Ég ákvað að gera það aldrei aftur. Ég var við það að fá taugaáfall,“ segir hún, en í þriðju seríu leikur hún áfram Mollý en aðrir sáu um framleiðsluna.
Hvernig var að stjórna strákunum?
„Strákarnir voru mjög duglegir að tileinka sér hugmyndir og hugtök úr kvikmyndabransanum, en það getur verið erfitt að vera á setti með fimm drengjum sem elska að syngja og radda við hvert tækifæri. Þá getur verið erfitt að halda tempói og ró. Á milli atriða voru þeir kannski búnir að taka upp gítarinn og brostnir í söng og við hin að reyna að tala saman og vinna,“ segir hún og skellihlær.
„Ég bað þá oft vinsamlegast að hafa hljóð, en það var samt oft gaman. Það var partur af þessu, að þagga niður í þessum blómum. Og hver vill gera það? Hver vill segja Iceguys að þegja? En það þurfti að gera það.“
Ítarlegt viðtal er við Söndru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.