Nýjar reglur um drónaflug hafa tekið gildi hér á landi. Öllum sem hafa dróna í umsjá sinni er nú gert að skrá sig inn á flydrone.is og greiða skráningargjald til fimm ára að fjárhæð 5.500 krónur. Merkja skal alla dróna og þeir sem fljúga stærri drónum þurfa að þreyta hæfnispróf.
Með reglugerð eru nýjar reglur Evrópusambandsins um flug ómannaðra loftfara innleiddar.
Undantekning er gerð frá skráningu vegna dróna sem vega undir 250 grömm og eru ekki með myndavél eða annan búnað sem numið getur einhvers konar persónuupplýsingar.
Þá er einnig gerð undantekning frá skráningarskyldu dróna sem eru með myndavél eða búnað sem numið getur persónuupplýsingar, ef þeir skilgreinast sem leikföng í skilningi Evróputilskipunar.
Þá er lögreglu, landhelgisgæslu og almannavörnum sem og viðbragðsaðilum á þeirra vegum heimilt að víkja frá kröfum sem snúa að umsókn um leyfi og framkvæmd áhættumats í störfum sínum þegar aðstæður krefjast.
Lesa má umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.