Tuborg í algerum sérflokki

Komu Tuborg-jólabjórsins er jafnan fagnað í miðbænum ár hvert. Ótrúlegt …
Komu Tuborg-jólabjórsins er jafnan fagnað í miðbænum ár hvert. Ótrúlegt magn hefur selst af Tuborg Julebryg þetta árið í Vínbúðunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sala á jólabjór í Vínbúðum ÁTVR er ívið meiri í ár en á sama tíma í fyrra. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR höfðu 270.787 lítrar af jólabjór selst þar á bæ þegar verslunum var lokað á miðvikudaginn síðasta. Til samanburðar höfðu 264.900 lítrar selst í lok dags 11. desember í fyrra.

Vert er að hafa í huga að í fyrra hófst sala á jólabjór 2. nóvember en í ár hófst salan hins vegar 31. október. Þá er mismunandi hvernig helgar leggjast milli ára en þá er mesta salan. Ef hins vegar er aðeins horft á söluna fram til 11. desember í ár og í fyrra hefur hún aukist um 2,2% á milli ára.

Sem fyrr er Tuborg-jólabjórinn sá langvinsælasti en hlutdeild þessa vinsæla bjórs hefur þó ótrúlegt en satt aukist á milli ára. Síðustu ár hefur um helmingur alls selds jólabjórs í Vínbúðunum verið Tuborg Julebryg en nú ber svo við að hlutfallið er komið upp í 56%. Það sem af er ári hafa 151.736 lítrar af Tuborg-jólabjór selst.

Næstvinsælasti jólabjórinn er Víking-jólabjór en tæplega 22 þúsund lítrar hafa selst af honum eða rúm 8% af heildarsölunni. Þriðji vinsælasti jólabjórinn er Gull lite jól white ale með 7,5% heildarsölunnar, rúma 20 þúsund lítra.

Þá hafa rúmir 10 þúsund lítrar selst af Thule-jólabjór, tæp 4% heildarsölunnar, og rúmir átta þúsund lítrar af Jóla Kalda eða 3% heildarsölunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert