Við finnum að fólk virðist almennt vera að draga úr neyslu á jólunum. Fólk er orðið svolítið gagnrýnið á ofgnóttina og horfir frekar til gamla tímans og einfaldleikans. Þjóðminjasafnið selur til dæmis gamaldags spýtujólatré og við heyrum fólk segja sem kemur á jólasýninguna hér til okkar að það væri nú alveg til í að vera með slík jólatré, með öðrum orðum halda auðmjúk jól. Nú er fólk líka orðið meðvitaðra um að halda til haga jólapappír utan af jólagjöfum og endurnýta næstu jól,“ segja þær Linda Ásdísardóttir og Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir, safnverðir á Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka. Þar taka þær vel á móti blaðamanni og leiða um jólasýninguna sem þær hafa sett upp.
„Gömlu jólatrén sem safnið á eru ævinlega aðalatriðið á árlegri jólasýningu Hússins, en við bætum ýmsu öðru við, sýningin er því aldrei eins. Þetta árið erum við vel uppteknar af lyngi til jólaskreytinga á gömlu trjánum, rétt eins og var viðtekin venja í gamla daga notum við beitilyng og sortulyng, en líka greinar af einirunna. Við förum oftast saman safnverðirnir að tína lyngið og hér áður fyrr gerðum við það með Hildi Hákonardóttur, en hún vann lengi hér á safninu og tók að sér að skreyta fyrir jólin með ólíkum kvennahópum.“
Þær eru stoltar af fjölbreyttum gömlum jólatrjám safnsins, en kjörgripurinn er elsta varðveitta heimasmíðaða spýtutré landsins, frá 1873.
„Þetta 150 ára gamla tré er fallegur fulltrúi sinnar tíðar, en það kemur frá prestssetrinu Hruna í Hrunamannahreppi. Danska prestsfrúin þar, hún Kamilla, lét smíða jólatréð fyrir sig og það gerði hagleiksmaðurinn Jón Jónsson frá Þverspyrnu. Dóttir Kamillu fékk tréð eftir hennar dag, en hún bjó á Oddgeirshólum á Skeiðum. Hér er hefð fyrir því að bjóða nemendum tíunda bekkjar á Eyrarbakka og Stokkseyri að koma í Húsið á aðventunni og skreyta eftirlíkingu af trénu við hlið þess gamla, og að því loknu fá þau fá heitt kakó og þá gefst tækifæri til að spjalla um jólin,“ segir Ragnhildur sem fór nýlega og spjallaði um gömlu jólin við nemendur í fyrsta til fjórða bekk grunnskóla í Bláskógabyggð og hafði með sér eftirgerð af einu af gömlu jólatrjánum sem eru í safneign Hússins.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem komu út fimmtudaginn 12. desember.