„Hann er einstakur í heiminum“

Guðni og trukkurinn.
Guðni og trukkurinn. Ljósmynd/Aðsend

Það er ekki á hverjum degi sem sérsmíðaður átta hjóla ofurtrukkur samansettur úr þremur öðrum bílum kemur á markað. 

Það er þó tilfellið nú þar sem þeir félagar Friðrik Halldórsson og Guðni Ingimarsson ætla að láta slíkan bíl af hendi. Þeir hafa lagt inn mikla vinnu í bílinn og verðleggja hann á 32 milljónir króna.

Bíllinn er m.a. samansettur úr mótor úr amerískum pallbíl, grind sem var eitt sinn í gömlum mjólkurbíl úr Flóanum og „hásingum“ sem koma úr þýskum Dingó-hertrukki. 

„Við smíðuðum hann alveg sjálfir. Hann er einstakur í heiminum,“ segir Friðrik. 

Grindin í trukknum er úr gömlum mjólkurbíl úr Flóanum.
Grindin í trukknum er úr gömlum mjólkurbíl úr Flóanum. Ljósmynd/aðend

Tæki sem þarf að vera í vinnu 

Friðrik segir það visslega undarlega tilfinningu að láta bílinn frá sér þar sem þeir Guðni hefðu varið miklum tíma í hann. Báðir hafa þeir sinnt ferðamennskunni í hjáverkum en Friðrik segir þá vera orðna þreytta á því og þess vegna séu þeir reiðubúnir að selja bílinn. 

„Þetta er búið að vera hobbíið okkar og þetta tæki þarf bara að vera í mikilli vinnu, svona ofurtrukkur,“ segir Friðrik.   

,,Hásingar
,,Hásingar" eru úr þýskum Dingó-hertrukki. Ljósmynd/Aðsend

„Mjög duglegur“ bíll 

„Þessi er mest búinn að vera uppi á Langjökli og í Kerlingarfjöllum. Hann er mjög duglegur og hugsaður sem jöklabíll,“ segir Friðrik.

Hann segir að þeir hafi að mestu sloppið við viðhald á bílnum.

„Það hefur ekki mikið þurft að gera. En þetta er svo mikið tæki þannig að maður þarf alltaf að vera að kíkja og fylgjast með því hvort allt sé ekki í lagi,“ segir Friðrik.

Vélin er hin sama og var í „fremsta bílnum“ sem er af gerðinni Chevrolet Kodiak Pickup frá GM. Hann segir Guðna hugsuðinn á bak við bílinn en hann er vélarverkfræðingur.

„Við höfum svo sem smíðað nokkra bíla í gegnum tíðina en þetta er það stærsta og mesta sem við höfum gert,“ segir Friðrik.

Friðrik Halldórsson.
Friðrik Halldórsson. Ljósmynd/Aðsend

Snúið að verðleggja bílinn 

Ásett verð á bílinn er um 32 milljónir króna. Friðrik segir að bíllinn hafi farið í sölu á fimmtudag og enn sem komið er hafi ekkert tilboð borist í bílinn. 

Er ekki erfitt að verðleggja svona bíl?

„Jú, það er erfitt. Ef við ætluðum að fá eitthvað út úr honum í samanburði við vinnuna sem við höfum lagt í hann þá þyrftum við eflaust að verðleggja hann tvisvar til þrisvar sinnum hærra. En við erum sannfærðir um að við munum aldrei fá það fyrir hann,“ segir Friðrik. 

Hann segir að þeim hafi verið ráðlagt að selja bílinn erlendis, en þeir ætli að reyna að selja bílinn á Íslandi fyrst.  

Bíllinn á ferð á jökli.
Bíllinn á ferð á jökli. Ljósmynd/aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert