Jafnast ekki á við þau allra bestu

Einvígið í Singapúr Kínverjinn Ding Liren (t.v.) og Indverjinn Gukesh …
Einvígið í Singapúr Kínverjinn Ding Liren (t.v.) og Indverjinn Gukesh Dommaraju einbeittir við skákborðið. AFP/Simon Lim

Margeir Pétursson, stórmeistari í skák, segir nýkrýndan heimsmeistara í skák, Gukesh Dommaraju, ekki standast samanburð við fremstu skákmenn sögunnar. Hins vegar eigi Gukesh bjarta framtíð, en hann er yngsti heimsmeistari sögunnar, aðeins 18 ára, og þriðji yngsti stórmeistari sögunnar.

Gukesh, sem er Indverji, bar sigurorð af Kínverjanum Ding Liren með sjö og hálfan vinning á móti sex og hálfum vinningi í 14 skáka einvígi sem fram fór í Singapúr.

„Einvígið var mjög spennandi. Svo vill til að ég tefldi við Gukesh fyrir aðeins tveimur mánuðum í Evrópukeppni skákfélaga í Serbíu og fékk ágæta stöðu með svörtu. Mér fannst mun meiri þungi í taflmennsku Kasparovs og Karpovs í gamla daga. Ég skynjaði meira að segja á meðan á skákinni stóð að Gukesh lék þrívegis ónákvæmum leikjum. Í tímahraki átti ég meira að segja möguleika á að ná góðu mótspili en sá það ekki,“ segir Margeir, sem hefur teflt á móti nokkrum af fremstu skákmönnum sögunnar, þar með talið gegn Garrí Kasparov, Anatolí Karpov og Magnúsi Carlsen.

Margeir Pétursson, bankamaður og stórmeistari í skák.
Margeir Pétursson, bankamaður og stórmeistari í skák. mbl.is/Karítas

Lék illa af sér

„Ég hef fylgst grannt með þessu einvígi í Singapúr. Þetta er engin taflmennska miðað við einvígi [Bobby] Fischer og [Boris] Spassky [í Reykjavík árið 1972]. Ding lék ótrúlega illa af sér í síðustu skákinni þar sem hann gat haldið jafntefli og þvingað fram framlengingu á einvíginu með styttri umhugsunartíma. Þetta er mun lakari taflmennska en til dæmis hjá Fischer og Spassky 1972, svo ekki sé talað um Kasparov og Karpov.“

Eru þá Gukesh og Ding hvorugur meðal fremstu skákmanna sögunnar?

„Mér finnst það ekki. Ég verð að segja það. Fischer var að mínu viti mun sterkari 1972 en Gukesh er núna. Tel það alveg augljóst.“

Var í mikilli lægð

Hvað vantar í skákina hjá þessum tveimur, Gukesh og Ding, til þeir teljist meðal þeirra allra bestu?

„Ding tefldi auðvitað mun betur í þessu einvígi en hann hefur teflt í ár. Hans besta skák í einvíginu var 12. skákin þegar hann jafnaði metin. Raunar hefur Ding verið í skelfilegri lægð eftir að hann varð heimsmeistari í fyrra. Það spáðu því flestir að Gukesh myndi vinna Ding auðveldlega. Svo kom þessi stórkostlegi afleikur hjá Ding í síðustu skákinni sem er sjaldgæft að sjá í heimsmeistaraeinvígi. Skákskýrendur segja að hann hafi farið á taugum.“

En hversu góður skákmaður er nýi heimsmeistarinn?

„Hann er auðvitað mjög góður en þó kannski aðeins einn af 10-15 sterkustu skákmönnum heims. Hann er ekki afgerandi bestur eins og Fischer eða Karpov eða Kasparov voru, svo að einhverjir séu nefndir, eða Magnús Carlsen.“

Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert