Kæst skata og humar eru á sínum stað

Fisksalinn Aron Elí Helgason er ánægður með viðtökur viðskiptavina og …
Fisksalinn Aron Elí Helgason er ánægður með viðtökur viðskiptavina og bjartsýnn á framhaldið. mbl.is/Karítas

Þorláksmessuskatan er handan við hornið og unnendur kæstrar skötu eru komnir með árvisst bragðið í munninn.

„Við erum tilbúnir með skötuna,“ segir Aron Elí Helgason, sem rekur Fiskbúðina á Sundlaugavegi 12 í Reykjavík með Agli Makan. Hann bendir á að langmesta salan í skötunni sé venjulega upp úr 18. desember og fisksala sé yfirleitt góð á þessum árstíma. „Núna eru allir að vinna í því að koma sér í kjólinn fyrir jólin og það er mikil fisksala.“

Félagarnir tóku við rekstrinum síðsumars og opnuðu hverfisverslunina fyrir liðlega tveimur mánuðum, en hún hafði verið lokuð frá því í vor.

„Það hefur gengið mjög vel og viðskiptavinir hafa lýst yfir ánægju með að aftur sé búið að opna fiskbúð hérna,“ segir Aron. Þeir séu farnir að þekkja föstu viðskiptavinina en stöðugt bætist nýir við í hópinn. „Við erum mjög sáttir við viðtökurnar.“

Fiskbúðin er opin klukkan 11.00-18.30 alla virka daga nema til klukkan 17.30 á föstudögum, en er lokuð um helgar. Fisksalarnir kaupa fiskinn unninn frá fiskvinnslum. „Því þurfum við ekki að mæta fyrr en klukkan átta á morgnana.“ Þeim þyki gaman í vinnunni, sérstaklega sé skemmtilegt að sjá ánægða viðskiptavini og margir séu farnir að kaupa humar, humarsúpu og rækjur til jólanna.

Nánar má lesa um máli í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert