Varð strax mjög frægur á spítalanum

Friðrik S. Kristinsson kórstjóri.
Friðrik S. Kristinsson kórstjóri. Mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég varð á augabragði mjög frægur á spítalanum og kandídatar streymdu að ásamt faglæknunum enda margt af þessu að læra. Allir vildu skoða karlinn,“ segir Friðrik S. Kristinsson, stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur, en hann veiktist heiftarlega fyrir rúmu ári og er fyrst núna að ná fyrri styrk. Veikindi hans voru fjölþætt og fyrir vikið var áhugi lækna mikill. 

Hann var greindur með sýkingu í hjartavöðva og risafrumuslagæðabólgu sem bregðast þurfti við með hraði. Hann var ekki fyrr lagstur inn en að hjartað byrjaði að skjóta blóðtöppum upp í augun sem aftur leiddi til skyndiblindu sem gekk til allrar hamingju til baka. Varanleg skemmd varð þó á sjóninni. Daginn eftir greindist Friðrik síðan með fjölvöðvagigt sem meðhöndla þurfti með sterum. 

Of stór hjartavöðvi

Við meðhöndlun sýkingarinnar í hjartanu kom í ljós að Friðrik er með of stóran hjartavöðva, en það er meðfæddur kvilli sem einnig þurfti að bregðast við með lyfjagjöf. Hann mun raunar þurfa að taka lyf af þeim sökum eins lengi og hann lifir. „Þessu er haldið niðri með góðum lyfjum. Ég er með læknisvottorð upp á það að ég er með stórt hjarta,“ segir hann kíminn.

Friðrik og Þórdís Helgadóttir, eiginkona hans, ásamt börnum sínum, tengdabörnum …
Friðrik og Þórdís Helgadóttir, eiginkona hans, ásamt börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum. Þau héldu þétt utan um hann í veikindunum.

Um tíma var inni í myndinni að Friðrik færi í opna hjartaaðgerð en lyfin hafa á hinn bóginn virkað það vel að ekki hefur orðið af því. „Og vonandi er það alveg frá núna,“ segir hann.   

Blindan gekk til baka en eins og fyrr segir er tjónið á sjóninni samt varanlegt. Friðrik sér vel frá sér en mun verr nær sér en hann gerði. „Ég get ekki lengur lesið bækur og blöð, eina leiðin fyrir mig er að stækka allt í spjaldtölvunni. Stundum sný ég kórmöppunni líka öfugt,“ segir Friðrik sem sér greinilega spaugilegu hliðarnar á þessum hremmingum sínum. „Þetta kemur ekki til með að lagast og með því verð ég að lifa.“

Friðrik var settur á stera vegna fjölvöðvagigtarinnar sem hann þurfti að taka í hálft ár. Verkirnir, sem voru í höndum og fingrum, baki, hálsi og víðar, hurfu við það eins og dögg fyrir sólu.

Ítarlega er rætt við Friðrik um veikindin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en líka ferilinn í tónlistinni.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert