Karlmaður hefur verið ákærður fyrir nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi. Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.
Maðurinn er sakaður um að hafa í nóvember 2021 beitt þáverandi sambýliskonu sína á heimili þeirra ofbeldi og ólögmæta nauðung og án samþykkis haft samræði eða önnur kynferðismök við konuna á sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt.
Konan streittist á móti og bað sambýlismann sinn ítrekað um að hætta. Hlaut hún töluverð meiðsli af ofbeldi mannsins.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar fyrir brot sín og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Konan fer fram á 5.000.000 kr. auk vaxta og dráttarvaxta í miskabætur og að manninum verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.