„Það er búið að vera að einfalda byggingarreglugerð og draga úr ýmsum kröfum er varða t.d. innri og ytri umgjörð bygginga síðastliðin ár,“ segir Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, spurður um vöruhúsið sem reist var við Álfabakka 2 í Breiðholti við hlið fjölbýlishúss.
„Hins vegar eru oft settir skilmálar í deiliskipulag sem geta verið nokkuð ítarlegir þar sem það á við. Slíkir skilmálar geta verið opnari annars staðar, það átti m.a. við Álfabakkalóðina en þeir hefðu getað verið ítarlegri en raunin er. Þar var gamalt deiliskipulag í gildi frá árinu 2009 þar sem gert var ráð fyrir mjög stórri byggingu, 1-5 hæða, með möguleikum á fjölbreyttri atvinnustarfsemi en lóðin er á svokölluðu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi þar sem heimildir til notkunar eru talsvert rúmar.“
„Það er alveg rétt að skipulagsskilmálar voru rúmir en byggingaraðilar byggja samkvæmt þeim ramma sem þeim er veittur,“ segir Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Hún segir það alveg ljóst að ábyrgðin á þessu skipulagsklúðri við Álfabakka 2 sé alfarið hjá meirihluta borgarstjórnar. „Borgin þarf að setja skipulagsskilmála sem vernda ákveðna heildarhagsmuni og það var ekki gert þrátt fyrir ábendingar íbúa í hverfinu.“
Á fundi borgarráðs 15. júní 2023 var samþykkt úthlutun á lóðinni og sala byggingarréttar vegna þjónustu- og verslunarhúsnæðis við Álfabakka 2. Sjálfstæðismenn og Sósíalistar sátu hjá. „Við höfum ekki á neinu stigi fengið til kynningar eða samþykktar þrívíðar teikningar af byggingunni sem sýna afstöðuna til íbúðabyggðarinnar. Það er nokkuð óvenjulegt,“ segir Hildur.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag