Breytist um áramótin en fá litlar upplýsingar

Jón Þór Skaftason, sölustjóri hjá Erninum.
Jón Þór Skaftason, sölustjóri hjá Erninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um áramótin mun verð á hefðbundnum reiðhjólum hækka um 24% með breyttri útfærslu á ívilnanakerfi vegna kaupa á vistvænum farartækjum. Mun ívilnunin frá og með áramótum aðeins eiga við um rafmagnshjól en ekki hefðbundin hjól. Þá fer ívilnunin nú í gegnum Orkusjóð, en ekki með því að verslanir sjái um samskiptin við skattayfirvöld.

Þrátt fyrir að nýjar reglur eigi að taka gildi strax í upphafi árs hafa hjólaverslanir ekki fengið að vita nákvæmlega hvernig útfærslan á breytingunni verður. Forsvarsmaður hjólaverslunar segir yfirvöld ekki hafa svarað fyrirspurnum um hvernig fyrirkomulagið eigi að vera og að slíkt samskiptaleysi sé gríðarlega óþægilegt, sérstaklega þegar panta þurfi inn vörur með margra mánaða fyrirvara.

Hefðbundin hjól munu hækka um 24%

Jón Þór Skaftason, sölustjóri hjá Erninum, segir í samtali við mbl.is breytinguna helst koma niður á þeim sem kaupi barnahjól og ódýrari hjól sem ekki séu rafmagnsdrifin, en að óbreyttu mun verð þeirra hækka um 24% vegna þessarar breytingar. Þá segir hann skjóta skökku við að á sama tíma og tilgangur ívilnunarinnar sé að styðja við notkun vistvænna samgöngumáta, þá sé ívilnun fyrir hefðbundin hjól felld niður að fullu. „Hefðbundin reiðhjól eru vissulega vistvænni en rafmagnshjól,“ segir hann. „Þetta er í raun fáránlegt.“

Jón Þór segist hafa áhyggjur af því að þessi breyting muni sérstaklega koma niður á þeim sem ekki hafi endilega mikið milli handanna, eða þeirra sem eiga nokkur börn, en þá verði enn dýrara að kaupa hjól fyrir hópinn. Það leiði svo til þess að færri alist upp við að nota þennan vistvæna fararmáta. „Nógu hátt var verðið orðið. Við sjáum fram á að færri geti keypt hjól fyrir börn á næsta ári,“ segir hann.

Aðrar leiðir farnar í nágrannalöndum

Hann veltir því einnig fyrir sér hvort útfærslan á ívilnun í gegnum Orkusjóð sé besta útfærslan sem hefði verið hægt að fara í. Ef horft er til þess hvernig fyrirkomulagið hefur verið með ívilnanir með vistvæna bíla og Orkusjóð þá hafa bílaeigendur sjálfir þurft að sækja um hana í stað þess að verðið sé lækkað hjá umboðinu.

Þá bendir Jón Þór á að í Finnlandi og Bretlandi hafi verið farin sú leið að endurgreiðslan/ívilnunin fari í gegnum atvinnurekenda. Þar sé ívilnunin enda hluti af því að fá fleiri til að ferðast til og frá vinnu á hjóli. „Þá er þetta þannig að fyrirtæki kaupa hjól fyrir starfsmenn og fá svo afslátt af tekjuskatti frá ríkinu,“ segir hann, en sá afsláttur sé þá í raun afsláttur af hjólinu. „Þetta hefur vakið mikla lukku í Bretlandi,“ bætir hann við.

Sífellt fleiri velja að nota reiðhjól sem samgöngutæki allan ársins …
Sífellt fleiri velja að nota reiðhjól sem samgöngutæki allan ársins hring. Með breyttri útfærslu á ívilnunarkerfi stjórnvalda verða það bara rafmagnshjól sem njóta ívilnunar en ekki hefðbundin hjól. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir hann að hér á landi þar sem skattakerfið sé nútímalegt og tæknivætt ætti þessi útfærsla að vera nokkuð einföld.

Eins og breytingin er sett fram, með samþykkt fjárlaga, mun það líklegast valda því að öll hjól, bæði rafmagns og hefðbundin, munu hækka í verði í verslunum um allt að 96 þúsund krónum, en 96 þúsund krónur voru hámarkið sem hægt var að fá í ívilnun vegna virðisauka af hjólum áður. Þegar kemur að rafmagnshjólum mun svo kaupandi líklega sækja um ívilnun til Orkusjóðs, en í tilfelli rafbíla á að greiða slíka ívilnun út á innan við tveimur dögum.

Í tilfelli hefðbundinna hjóla fellur ívilnunin hins vegar alveg niður, líkt og áður segir.

Svarleysi yfirvalda og aukin óvissa fyrirtækja

Líkt og fram kom í tilkynningu frá stjórnarráðinu eftir að fjárlög voru samþykkt á að útfæra reglur um ívilnanir sem eiga að taka gildi um áramótin. Ekkert slíkt liggur þó enn fyrir. „Til að halda áfram að styðja við notkun vistvænna samgöngumáta samþykkti Alþingi að beina því til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að styrkja kaup einstaklinga á rafmagnshjólum í gegnum Orkusjóð. Mun ráðherra útfæra reglur um úthlutun styrkja til kaupa á slíkum samgöngutækjum fyrir 1. janúar 2025,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Jón Þór tekur fram að verst í öllu þessu ferli hafi verið svaraleysi og samskiptaleysi yfirvalda. Engar upplýsingar hafa fengist hvernig nákvæmlega eigi að útfæra þessa breytingu, þrátt fyrir að aðeins um hálfur mánuður sé í hana.

Þá hafi hann í fyrra, þegar virðisaukaskattsívilnunin var framlengd um eitt ár, þurft að ganga á eftir því að fá svör frá þingmanni hvernig fyrirkomulagið yrði, því enginn frá ráðuneytinu hefði haft samband við reiðhjólaverslanir. „Við fáum ekki að vita neitt nema á síðustu stundu þegar búið er að gera pantanir fyrir næsta ár,“ bætir hann við, en flestar reiðhjólaverslanir gerðu pantanir fyrir næsta vor nú í haust.

Með þessu segir Jón Þór að óvissan hafi aukist umtalsvert og hjá Erninum, sem er ein stærsta, ef ekki stærsta hjólreiðaverslun landsins, hafi verið ákveðið að panta frekar færri hjól en fleiri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert