Fjölskylda Lúðvíks Péturssonar, sem hvarf þegar hann féll ofan í sprungu í Grindavík 10. janúar, hefur farið fram á það að ákveðið verði með dómi að Lúðvík skuli talinn látinn.
Í síðustu viku samþykkti dómsmálaráðuneytið erindi fjölskyldunnar um að fram fari rannsókn óháðra aðila á atvikinu. Fjölskyldunni barst bréf þess efnis síðla í nóvember. Þar kemur fram að samþykkt hafi verið að rýna í aðgerðir eða aðgerðarleysi á svæðinu í aðdraganda andlátsins. Þar kemur fram að settur verði á fót starfshópur til að gera athugun á atvikinu.
Nú hefur fjölskyldan höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að fá endanlegan dóm um örlög Lúðvíks enda hafi þau lögmætra hagsmuna að gæta af því að fá dómsúrlausn, að því er segir í Lögbirtingablaðinu.
Í stefnu fjölskyldunnar, sem eru skylduerfingjar Lúðvíks, kemur fram að fullvíst þyki að hann hafi fallið ofan í sprungu við Vesturhóp 29 í Grindavík 10. janúar 2024 og sé nú látinn. Lúðvík hafi starfað þann dag við jarðvegsþjöppun og við að fylla upp í sprungur í Grindavík er þar höfðu myndast vegna jarðskjálfta.
Héraðsdómari hefur af þessu tilefni gefið út fyrirkall þar sem hverjum þeim sem telij sig geta gefið upplýsingar um dvalarstað eða afdrif Lúðvíks er stefnt til að mæta til dómsþings við Héraðsdóm Reykjavíkur 12. mars. Þar verður málið þingfest til að fjalla um kröfu fjölskyldunnar. Gefi enginn sig fram má búast við að dómur gangi um að Lúðvík skuli talinn látinn.