Ný gjaldskrá Vaðlaheiðarganga tekur gildi 2. janúar og hækkar gjaldið fyrir hverja staka ferð og einnig á kortum sem keypt eru með magnafslætti. Veggjaldshækkunin nemur 6% á alla greiðsluflokka.
Þannig mun stök ferð fyrir ökutæki undir 3,5 tonnum kosta 2.110 krónur en kostaði áður 1.850 krónur. Fyrir ökutæki sem vega 3,5 til 7,5 tonn mun stök ferð greidd á veggjald.is kosta 2.986 krónur eftir áramót.
Fyrir bíla sem vega meira en 7,5 tonn mun ferðin kosta 6.255 krónur eftir áramót.
Þá mun stök ferð hækka aftur frá og með 1. júní og kosta þá 2.152 krónur.
Í tilkynningu frá Vaðlaheiðargöngum segir enn fremur að eftir áramót verði boðið upp á nýjung til reynslu, þar sem ökumenn geta greitt árgjald gegn staðgreiðslu óðháð umferð. Nú þegar er boðið upp á mánaðargjald fyrir fast ökutæki.