Formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins hafa í dag fundað með sínu fólki og munu hvorki gefa kost á viðtölum né upplýsingar um gang stjórnarmyndunarviðræðna fyrr en í fyrsta lagi á morgun.
Þetta staðfestir aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, við mbl.is.
Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að formennirnir hefðu ekki fundað um helgina eins og til stóð að gera. Þess í stað fóru þeir yfir þá þá vinnu sem vinnuhópar flokkanna höfðu skilað af sér, hver í sínu lagi.
Greint var frá því fyrir helgi að formenn flokkanna þriggja ætluðu að funda um ágreiningsmál um helgina en Þorgerður sagði á blaðamannafundi á föstudag að tillögur vinnuhópana bæru þess merki að ekki væri samhljómur um allt á milli þeirra.
Ekki ætti eftir að ræða mörg ágreiningsmál og sagðist hún vongóð um að tækist að leysa úr þeim, eins og gert hefði verið til þessa.
Hún vildi ekkert gefa upp um hvaða mál það væru sem flokkana greindi enn á um, en sagði enn stefnt á að hefja ritun á nýjum stjórnarsáttmála í vikunni.