„Hótunum beitt og ósannindum hent fram í umræðuna“

Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT, og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT, og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Samsett mynd/Arnþór Birkisson/Eggert Jóhannesson

Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT, segja ýmsa aðila hafa reynt að gera kjarasamning samtakanna og stéttarfélagsins Virðingar tortryggilegan að undanförnu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum í kvöld.

Í tilkynningunni er bent á að laun fastra starfsmanna hækki um 150.000 kr. til 200.000 kr. á ári samkvæmt kjarasamningi SVEIT og Virðingar og að gerð kjarasamningsins hafi verið fullkomlega lögleg gjörð.

Stéttarfélagið Efling og formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, hefur lagst hart gegn og sagt að kjarasamningurinn sem um ræðir stangist á við fjölda laga. BHM, BSRB og Alþýðusamband Íslands hafa meðal annarra tekið undir gagnrýni Eflingar.

Styrki þau sem hafa aðalatvinnu í geiranum

Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri SVEIT, skrifar undir ályktun stjórnar samtakanna sem gefin var út sem tilkynning.

Þar segir að samningurinn miði að því að styrkja dagvinnu þeirra sem gera starf í geiranum að aðalatvinnu á kostnað lausafólks sem þau segja taka skemmri og færri vaktir.

Þá er bent á að SVEIT komi ekki að neinu leyti að stofnun Virðingar og ráði engu um starfsemi félagsins.

„Þetta er rétt að ítreka enn einu sinni eftir harðar og óvægnar árásir verkalýðsfélagsins Eflingar, sem teknar hafa verið upp af ýmsum öðrum aðilum.“

Hótanir og ósannindi 

Samtökin segja gerð kjarasamningins hafa verið fullkomlega lögleg gjörð og að það sannist í því að Efling og fleiri félög notist við hótanir og ósannindi og að félögin hafi ekki gert minnstu tilraun til að fara lagalega leiðir til að sýna fram á annað. 

„[...]heldur er hótunum beitt og ósannindum hent fram í umræðuna til að reyna að hindra að viðsemjendur á vinnumarkaði veitingageirans semji sín á milli án þeirra milligöngu,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert