Stórbrotin ljósmynd af auga gígsins í eldgosinu við Litla-Hrút í ágúst 2023 vann til alþjóðlegra ljósmyndaverðlauna í New York í Bandaríkjunum. Íslendingurinn sem tók ljósmyndina var einnig valinn ljósmyndari ársins. Hægt er að sjá verðlaunamyndina neðar í fréttinni.
Auga eldfjallsins (e. The Volcano Eye) er ljósmynd eftir Íslendinginn Gunnar Frey Gunnarsson og var hún valin ljósmynd ársins í ljósmyndakeppni New York Photography Awards.
Þar að auki var Gunnar sjálfur valinn ljósmyndari ársins.
Bjóstu við þessu?
„Nei, alls ekki,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is og heldur áfram: „Ég var eiginlega í sjokki. Ég hef eiginlega aldrei tekið þátt í svona ljósmyndakeppni áður og aldrei unnið neitt áður þannig að þetta kom mér verulega á óvart.“
Um sex þúsund manns tóku þátt í keppninni frá 55 löndum.