Fyrir nokkrum vikum barst Hinu íslenzka reðasafni afsteypa af limi Bretans Matt Barr en limur Barr er talinn vera sá lengsti í heiminum eða liðlega 36 sentímetrar.
„Við höfðum samband við fullt af fólki út um allan heim og fólk sem við höfum verið í samstarfi við og við vitum ekki af neinum, í raun og veru, lengri lim,“ segir Þórður Ólafur Þórðarson, framkvæmdastjóri Reðasafnsins.
Afsteypa af limi Barr er til sýnis á safninu en Barr gerði að sögn Þórðar garðinn frægan í breska sjónvarpsþættinum „My Massive C***“.
Þórður segir að starfsfólk safnsins hafi séð umfjöllun um lim Barr á netinu og í kjölfarið hafi það sett inn færslu á samfélagsmiðillinn Twitter, nú X, um málið. Einhvern veginn rakst Barr á færslu Reðasafnsins og hafði í kjölfarið samband við safnið.
Þá hafði Barr fengið þær upplýsingar frá lækninum sínum, eftir þvagrásarmælingu, að hann væri með lengstu þvagrás Evrópu.
Í kjölfarið spurði hann Reðasafnið hvort hann gæti ekki fengið þetta staðfest hjá þeim og jafnvel einhvers konar viðurkenningu.
„Þá leiddi eitt af öðru og ég sagði honum við höfum verið að fá afsteypur af ýmsum frægum einstaklingum, eftir að við fengum Jimi Hendrix afsteypuna, fyrir tveimur árum, og ég spurði hvort hann vildi ekki bara senda okkur afsteypu af sjálfum sér.“
Þórður segir hann hafa brugðist vel við tillögunni og síðar farið í frekari mælingar sem sýna fram á að Barr sé líklegast með lengstu þvagrás sem hefur nokkurn tímann verið skráð, ekki einungis í Evrópu heldur í öllum heiminum.
„Við fengum þessa afsteypu frá honum og þetta er hræðilega stórt og í raun glæsilegur sýningargripur sem hann vill endilega að við höfum uppi ásamt upplýsingum um hann.“
Þórður segir lim Barr í fullri reisn vera 14,2 þumlungar eða liðlega 36 sentímetrar.
„Hann er líka alveg mjög svo gildur þessi limur.“
Þórður segir að frægðarsól Barr rísi mjög hratt þessa stundina en vilji fólk kynna sér sögu Barr þá var hann í viðtali í breska spjallþættinum This Morning fyrr á árinu.