„Við erum bara föst hérna úti á flugvelli og komumst ekki út á pall núna en það á að athuga með flug fyrir okkur klukkan kortér yfir eitt,“ segir Anna Svala Árnadóttir, starfsmaður þjónustufyrirtækisins ESS sem raunar heyrir undir samsteypuna Compass Group og annast ræstingar og rekstur mötuneyta hjá olíufyrirtækjum í landi í Stavanger og úti á borpallasvæðum Norðursjávarins.
Anna Svala starfar á flotpallinum Balder sem staðsettur er á samnefndu olíuvinnslusvæði úti fyrir Haugesund og hinni sögufrægu Karmøy, eða Körmt eins og hún var nefnd í kveðskap Þórðar skálds Sjárekssonar á elleftu öld. Situr hún nú að kaffidrykkju og almennum leiðindum á flugvellinum í Sola, nágrannabæ Stavanger, þaðan sem flogið er út til Ekofisk-olíuvinnslusvæðis bandaríska olíurisans ConocoPhillips auk fleiri svæða norðar.
Veður hafa verið válynd í Vestur-Noregi það sem af er sólarhringnum, hafa almenningssamgöngur víða gengið úr skorðum og íbúar byggðarlaga orðið innlyksa vegna vegalokana og skriðufalla í hinu vogskorna og hrikalega landslagi fylkjanna Rogalands, Vestlands auk Mæris og Raumsdals.
Þyrlunum sem annast flutninga borpallastarfsfólks milli lands og palla er af öryggisástæðum bannað að lenda á pöllunum nái ölduhæð við þá fjórum metrum og stöðvaðist þyrluflug því algjörlega í dag.
„Ég er bara að pæla í því hvort ég eigi að fá mér annan kaffibolla, ég er búin með fjóra bolla síðan hálfátta,“ segir Anna Svala og hlær, en verði ekki flogið klukkan 13:15, 12:15 að íslenskum tíma, kveðst hún reikna fastlega með því að hópurinn verði sendur heim með von um flug á morgun.
Sá mannafli pallsins sem að sama skapi er fastur þar úti á meðan ófleygt er starfar þá áfram án þess að það hafi áhrif á vaktlok Önnu Svölu er þar að kemur, hún fer heim á fyrirframáætluðum tíma en úthaldið sem nú er að hefjast styttist vegna samgöngutruflunarinnar.
„Ef þetta gengur ekki í dag skilst mér að eigi að prófa aftur klukkan tíu í fyrramálið því svo á veðrið að fara upp aftur á miðvikudaginn,“ segir Anna Svala Árnadóttir að lokum þar sem hún bíður þess sem verða vill á Sola-flugvelli í Rogalandi, ekki alllangt frá þar sem býli höfðingjans Erlings Skjálgssonar stóð fyrir eitt þúsund árum, en af honum sagði Snorri í konungasögum sínum í Heimskringlu.