Ruddist inn í íbúð og sagðist vera vopnaður

Fimm gista í fangaklefum nú í morgunsárið.
Fimm gista í fangaklefum nú í morgunsárið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði eins og venjulega í mörg horn að líta í gærkvöld og í nótt og nú í morgunsárið gista fimm í fangaklefa.

Lögregla var kölluð til vegna innbrots í heimahús í miðborginni. Þar hafði munum verið stolið en þjófurinn fannst skömmu síðar og var handtekinn í þágu rannsóknar málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, þar sem greint er frá verkefnum hennar frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í nótt. Alls eru 52 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.

Lögregla á lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, var kölluð til vegna skemmdarverka en þar var búið að skemma útidyrahurð í fjölbýlishúsi. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp þar sem ökumaður hafði misst stjórnar á bifreið sinni og endað á ljósastaur. Ekki er talið að neinn hafi slasast í óhappinu.

Lögreglan á lögreglustöð 4, sem sinnir Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ, fékk tilkynningu um aðila sem sagðist vera vopnaður og ruddist inn í íbúð í hverfinu. Lögregla kom á staðinn og handtók aðilann sem reyndist ekki vera vopnaður en málið er í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert