Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tæplega þrítugan karlmann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á leigubílstjóra og slá hann ítrekað í andlitið.
Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða bílstjóranum 350.000 kr. í miskabætur auk þess sem manninum er gert að greiða 830.000 kr. í sakarkostnað til ríkisins.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn í október en árásin átti sér stað í Reykjavík í janúar 2023.
Í ákæru var árásarmanninum gefið að sök að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 24. janúar 2023, innandyra í leigubifreið, veist með ofbeldi að leigubifreiðarstjóranum og slegið hann ítrekað í andlitið. Við þetta hlaut bílstjórinn bólgu og mar kringum hægra auga, mar í hársverði, eymsli í vinstra viðbeini og tárublæðingu í hægra auga, eins og segir í ákærunni.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 10. desember en var birtur í dag, að leigubílstjórinn hafi óskað eftir aðstoð lögreglu sem fór á vettvang.
„Á leiðinni fengu þeir upplýsingar um að brotaþoli væri að aka á eftir ætluðum árásarmanni sem leið lá vestur Sólvallagötu. Lögreglumenn urðu síðan varir við leigubifreiðina og téðan mann, þ.e. ákærða.
Var rætt við brotaþola og ákærða í aðgreindu lagi og aflað upplýsinga frá þeim um hverjir þeir væru og hvað hefði gerst. Þá var einnig rætt við B sem var í för með ákærða. Að sögn lögreglu voru ákærði og B sjáanlega undir áhrifum áfengis.
Að sögn lögreglu hrópaði hinn síðarnefndi endurtekið til ákærða á ensku spurningar á borð við af hverju varstu að þessu. Brotaþoli var með áverka í andliti og hið sama var að nokkru með ákærða, sbr. ljósmyndir í frumskýrslu,“ segir í dómnum.
Leigubílstjórinn sagði við skýrslutöku að árásarmaðurinn og félagi hans hefðu virst ósáttir hvor við annan í bílnum og reyndi bílstjórinn að stilla til friðar. Við það hafi árásarmaðurinn orðið mjög reiður, misst stjórn á sér og slegið bílstjórann með krepptum hnefa í andlitið.
Árásarmaðurinn hélt því fram við skýrslutöku að hann og félagi hans hefðu verið að grínast og farið í þykjustuslag. Það leiddi svo til illinda hjá þeim með alvöru slagsmálum. Fyrir dómi neitaði hann svo sök.
Lögreglumenn sem gáfu skýrslu fyrir dómi sögðu að árásarmaðurinn hefði verið undir vímuáhrifum og fremur vanstilltur þegar hann var handtekinn. Að sögn héraðsdóms styður þessi lýsing framburð leigubílstjórans um meinta árás og aðdraganda hennar.
Þá segir héraðsdómur að við meðferð málsins hafi ekkert komið fram sem styðji framburð og varnir ákærða um neyðarvörn og að þau skilyrði séu uppfyllt að hluta eða öllu leyti. Eru öll þau atriði ósönnuð en um þau ber hann sönnunarbyrðina.
„Að öðru leyti er ekkert komið fram sem styður atviksbundnar varnir ákærða af sama toga, þar á meðal að um hafi verið að ræða árás sem var unnin í áflogum og að brotaþoli hafi átt upptökin og/eða að ákærði hafi verið í geðshræringu. Skal þá einnig haft í huga að það var brotaþoli sem kallaði eftir aðstoð lögreglu. Jafnframt skal haft í huga að það var brotaþoli sem var við vinnu og allsgáður umrædda nótt. Þá verður að teljast afar ósennilegt í almennu tilliti að brotaþoli, sem leigubifreiðarstjóri, hefði ákveðið að veitast að fyrra bragði með ofbeldi að ákærða, sem vanstilltum farþega, hafandi bæði hann og B fyrir aftan sig í bifreiðinni og í orðaskaki við ákærða út af því sem gekk á í aftursæti bifreiðarinnar. Eru framangreindar varnir ákærða haldlausar og að engu hafandi við úrlausn málsins,“ segir í dómi héraðsdóms sem mat framburð bílstjórans trúverðugan.