Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, segir sjálfsagt að umræða verði tekin um veitingu kynþroskabælandi lyfja til barna í kjölfar þess að Bretar bönnuðu slíka lyfjaveitingu í ljósi skorts á rannsókna um langtímaáhrif lyfjanna á börn.
Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kallar hins vegar ekki eftir umræðu um þessi mál og kveðst lítið tengja við umræðuna í Bretlandi í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra Verkamannaflokksins bannaði sjálfstætt starfandi læknum að veita lyfin.
Fyrr á árinu ákvað opinbera heilbrigðiskerfið (NHS) að setja bann við að gefa börnum lyfin.
Þetta kemur fram í nýjasta þætti Dagmála þar sem fyrrnefndir þingmenn ræddu hin ýmsu hitamál í samfélaginu.
„Mér finnst þetta rosalega viðkvæm umræða, hún hefur farið illa í Bretlandi að mörgu leyti. Ég tengi einhvern veginn afskaplega lítið við þá umræðu sem þarna fer fram í tengslum við það hvort að það sé yfir höfuð hægt að upplifa sig sem trans,“ segir Dagbjört Hákonardóttir og bætir við að það sé sjálfsagður réttur hvers barns að leita læknisaðstoðar.
Bann Breta við lyfjaveitingunni er gert í kjölfar tímamótarannsóknar sem barnalæknirinn Hilary Cass, fyrrverandi forseti félags barnalækna í Bretlandi, var fengin til að gera fyrir NHS vegna mikillar fjölgunar barna sem fundu fyrir kynama á síðustu árum.
Í rannsókninni, sem var birt í apríl, var hvatt til mikillar varúðar áður en börn og ungmenni eru látin fá kynhormónabælandi lyf eða þau látin fara í krosshormónameðferð.
„Að sjálfsögðu eigum við að taka umræðuna um þessi mál, þetta getur náttúrulega ekki gerst án umræðu. En þetta er aðallega umræða sem varðar hlutaðeigandi fjölskyldur, að ákveða hvaða leið er stikuð í þessu. Það er gífurlega flókin ákvörðun, sérstaklega í ljósi þess að staðreynd málsins er sú að það er ekkert vitað um framtíðaráhrif þessa eða hvort að þetta er yfirleitt til góðs fyrir viðkomandi barn. Það liggja ekki fyrir rannsóknir um það,“ segir Snorri.
Dagbjört skaut þá inn í:
„Jú, jú það reyndar gerir það.“
Samkvæmt svörum embættis landlæknis við fyrirspurn mbl.is í mars á þessu ári kom fram að á árunum 2011 til 2022 hafi 55 börn á Íslandi fengið kynhormónabælandi meðferð (hormónablokk) sem gefin eru til að hindra tímabundið kynþroska einstaklings.
Finnst ykkur að heilbrigðisyfirvöld hér á Íslandi ættu að rannsaka þetta?
„Já, mér finnst að heilbrigðisyfirvöld eigi auðvitað að hafa augun opin fyrir því hvaða raunverulega áhrif aðgerðirnar sem þau fara í geti haft,“ segir Snorri.
Hann bendir á umfjöllun um það að heilbrigðisstarfsmaður hér á landi hafi fengið bágt fyrir eftir að hann vakti athygli á því að þessi mál væru vafin í mikla hugmyndafræði og það skorti vísindalegar niðurstöður.
„Það er ákveðinn rétttrúnaður sem ríkir að fólk dirfist ekki til þess að ræða þetta í raun og veru. En mér finnst alveg sjálfsagt, ef þetta eru einhverjar svona meiriháttar breytingar á stefnu innan heilbrigðiskerfisins að það sé einhver umræða tekin um það,“ segir Snorri.
Ríkisstjórn Íhaldsflokksins hafði bannað sjálfstætt starfandi læknum að veita lyfin tímabundið og nú hefur heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins gert bannið varanlegt „í kjölfar ráðlegginga frá heilbrigðissérfræðingum.“
Óbreytt ástand „býr til óviðunandi öryggisáhættu fyrir börn og ungmenni“ sagði Wes Streeting, heilbrigðisráðherra Bretlands.
Dagbjört kallar hins vegar ekki eftir frekari umræðu um þetta í samfélaginu og segir ekkert benda til þess að læknar séu ekki að veita meðferð í samræmi við þarfir barnanna.
„Ég myndi ekki kalla eftir þessari umræðu. Mér finnst engin teikn á lofti í íslensku samfélagi til þess að ætla annað en að hér séu að störfum heilbrigðisstarfsmenn, hvort sem það eru læknar eða sálfræðingar sem eru að veita meðferð í samræmi við lög og í samræmi við þarfir þess sem á í hlut – þess sjúklings sem á í hlut – að hverju sinni og þeirra barna sem eru hér. Þannig ég sé ekkert ákall um eitthvað nánara eftirlit í samfélaginu,“ segir Dagbjört.
Snorri og Dagbjört ræddu ýmis hitamál á borð við útlendingamál, rétttrúnað, stöðu vinstrisins, umhverfismál og nýlegt bann Breta við veitingu kynþroskabælandi lyfja til barna.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella hér.