„Á uppleið með þessum“

Formennirnir voru glaðir í lyftu í Alþingishúsinu í gær.
Formennirnir voru glaðir í lyftu í Alþingishúsinu í gær.

Formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins hófust í gær handa við að rita stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar og verður þeirri vinnu haldið áfram í dag. 

Ekki fæst uppgefið hverjir koma að ritun sáttmálans, en fyrir utan formenn flokkana taka að minnsta kosti aðstoðarmenn þátt í þeirri vinnu. Óvíst er hvort frekari upplýsingar verði veittar um gang mála í dag.

Í gærkvöldi birti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar mynd á Facebook-síðu sinni af formönnunum þremur saman í lyftu á Alþingi. „Á uppleið með þessum,“ skrifaði hún um myndina, þar sem þær brosa allar breitt.

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar endurbirti svo myndina á sinni síðu og skrifaði: „Góður dagur með þessum.“

Þær veittu þó engin viðtöl eftir fundahöld gærdagsins.

Stefnt að myndun nýrrar stjórnar fyrir áramót

Greint var frá því í Morg­un­blaðinu í gær að þær Kristrún, Þorgerður og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefðu ekki fundað um helg­ina eins og til stóð að gera. Þess í stað fóru þær hver í sínu lagi yfir þá vinnu sem vinnu­hóp­ar flokk­anna skiluðu af sér á föstudag.

Fyrir helgi var greint frá því að for­mennirnir ætluðu að funda um ágrein­ings­mál um helg­ina en Þor­gerður sagði á blaðamanna­fundi á föstu­dag að til­lög­ur vinnu­hóp­ana bæru þess merki að ekki væri sam­hljóm­ur um allt á milli þeirra.

Þó ætti ekki eftir að ræða mörg ágreiningsmál og sagðist hún vongóð um að það tækist að leysa úr þeim, eins og gert hefði verið til þessa. Einnig hefur komið fram að stefnt sé að því að mynda nýja ríkisstjórn fyrir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert