Nína Gautadóttir myndlistarkona lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti aðfaranótt föstudagsins 13. desember, 78 ára að aldri.
Nína fæddist í Reykjavík 28. júní 1946 og ólst upp í Vesturbænum, fyrst á Grenimel en síðan á Ásvallagötu. Foreldrar hennar eru Elín Guðjónsdóttir og Gauti Hannesson. Nína gekk í Gaggó Vest þar sem Jóhann Briem kenndi myndlist og hafði hann mikil áhrif á hana.
Hún fór í Hjúkrunarskóla Íslands en eftir útskrift þaðan hélt hún til Parísar og lærði myndlist í Beux-Arts eftir að hafa stundað frönskunám í eitt ár í Sorbonne. Hún vann fyrir sér meðfram náminu sem einkahjúkrunarkona hjá ríkum barónessum. Hún útskrifaðist úr málaradeild Beaux-Arts 1976 og fór síðan í framhaldsnám í vefnaði og skúlptúr.
Í list sinni blandaði hún gjarnan tækni þessara greina saman, vann m.a. við vefnaðinn með áhöldum myndhöggvarans, enda voru verk hennar gjarnan þrívíð, stór og kraftmikil. Hún fluttist síðan til Afríku, bjó í Kamerún, Saír og Níger þar sem hún kynntist hirðingjaþjóðflokknum Tuareg og lærði að vinna litríkar myndir í leður.
Eftir það sneri hún sér að málverkinu, vann m.a. með egypskar híeróglýfur og gerði eftirminnilegt 80 metra langt málverk byggt á sögunni Umhverfis jörðina á 80 dögum. Hún málaði fjölda mynda sem eru innblásnar af íslenskri náttúru.
Nína hélt sína fyrstu einkasýningu á Kjarvalsstöðum 1980 og hélt á ferli sínum yfir 30 einkasýningar og tók þátt í mörgum samsýningum. Hún vann til margvíslegra verðlauna fyrir verk sín, m.a. frá Parísarborg, Aþenuborg og fleirum. Verk hennar hafa verið keypt af söfnum og stofnunum víðs vegar um heim, m.a. Listasafni Parísarborgar, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Kópavogs og kirkjunni Saint-Germain-des-Prés í París.
Nína varði mastersgráðu í sálgreiningu við Université Paris 8 árið 2003. Hún lauk prófi úr Leiðsöguskóla Íslands 2008 og starfaði nokkuð við leiðsögumennsku eftir það. Hún bjó í París frá 1970 en kom alltaf til Íslands á sumrin. Hin síðari ár dvaldist hún sífellt meira á Íslandi.
Nína lætur eftir sig þrjú börn og fjögur barnabörn, sem öll búa í Bordeaux í Frakklandi.