Beita ítrekunarákvæði og þyngja dóm um helming

Landsréttur ákvað að þyngja dóm yfir Ívari með vísan í …
Landsréttur ákvað að þyngja dóm yfir Ívari með vísan í ítrekunarákvæði. Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur þyngt dóm yfir Ívari Aron Hill Ævarssyni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og tilraun til ráns, fjársvik, nokkur umferðarlagabrot, nytjastuld, þjófnað og fíkniefnalagabrot. Hefur Ívar undanfarið sætt síbrotagæslu vegna fjölda afbrota.

Landsréttur ákvað að beita ítrekunarákvæði í almennum hegningarlögum og var því dómur yfir Ívari þyngdur úr tveggja ára fangelsi sem hann hafði hlotið í héraði í þriggja ára fangelsi. Er það hámark þess sem ítrekunarákvæðið býður upp á, en þar er talað um að hægt sé að hækka refsingu um allt að helming yfir þeim sem áður hafi gerst sekir um líkamsárásir.

Stakk þroskaskertan mann í undirgöngum við Sprengisand

Ívar var í héraðsdómi fundinn sekur um fjölda brota, meðal annars stunguárás í júní á síðasta ári. Var sú árás talin sérstaklega hættuleg, en hann stakk 18 ára ungan karlmann þrisvar með hníf og reyndi að taka af honum reiðhjól.

Var maðurinn sem ráðist var á greindur með þroskaskerðingu og var á leið á íþróttaæfingu þegar Ívar réðst að honum og reyndi að hafa hjólið af honum. Þurfti ungi maðurinn að fara á gjörgæslu í aðgerð, en var ekki talinn í lífshættu.

Átti árás­in sér stað á gang­stétt við und­ir­göng við Sprengisand í Reykja­vík og hlaut brotaþoli eitt stungusár á vinstri mjaðma­kamb og tvö stungusár á vinstra læri með mikl­um út­vort­is og inn­vort­is blæðing­um, þar á meðal sára­blæðingu, auk þess sem hluti lær­vöðva hans fór í sund­ur. 

Árásin átti sér stað í undirgöngum við Sprengisand í Reykjavík.
Árásin átti sér stað í undirgöngum við Sprengisand í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Játaði skýlaust 

Jafnframt var hann fundinn sekur um nytjastuld, að hafa tekið bifreið í heimildarleysi, ekið henni sviptur ökuréttindum auk þess að vera óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.

Fyr­ir héraðsdómi játaði Ívar ský­laust alla þá hátt­semi sem hon­um var gef­in að sök í ákær­un­um og rétti­lega heim­færð til refsi­á­kvæði. Í niður­stöðu þess dóms seg­ir að líta beri til þess að hann hafi játað, auk þess að líta til þess að Ívar hafi í tvígang farið í meðferð eft­ir of­beld­is­brot og þannig reynt að bæta ráð sitt. 

Reynslan ekki sýnt að Ívar hafi reynt að bæta ráð sitt

Síðan Ívar hlaut fyrri dóminn hefur hann einnig hlotið annan dóm, en í október var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir meðal annars þjófnaðarbrot, nytjastuld, vörslur fíkniefna og umferðarlagabrot. Kom fram við meðferð málsins í Landsrétti að Ívar sætti nú síbrotagæslu.

Tekið er fram í dómi Landsréttar að hvorki sakaferill Ívars né annað sem hafi komið fram í málin beri vitni um að hann hafi reynt að bæta ráð sitt. Hins vegar hafi hann játað brotin skýlaust. Er tekið fram að horft sé sérstaklega til þess að líkamsárás hans hafi verið sérstaklega hættuleg og að hann hafi margsinnis áður hlotið dóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert