Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir við nýja mosku á Suðurlandsbraut 76 í Reykjavík hefjast.
Sagt var frá því í Morgunblaðinu 20. febrúar síðastliðinn að Félag múslima á Íslandi hefði sótt um endurnýjun á byggingarleyfi vegna fyrirhugaðrar mosku á Suðurlandsbraut 76. Þar var rifjað upp að byggingar- og skipulagsyfirvöld í Reykjavík hefðu í ágúst 2021 samþykkt að leyfa Félagi múslima á Íslandi að byggja bænahúsið.
Fram kom í Morgunblaðinu 27. ágúst 2021 að félagið fékk leyfi til að byggja moskuna árið 2019 en að ekki hafi verið hægt að hefja framkvæmdir strax. Þá vegna þess að ekki var búið að uppfylla ákveðin skilyrði á borð við afhendingu sérteikninga, greiðslu tilskilinna gjalda og ráðningu byggingarmeistara.
Samkvæmt upplýsingum frá arkitekt hefur ekki verið gengið frá sérteikningum en þær séu forsenda þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við moskuna. Þannig þurfi að skila inn teikningunum til byggingarfulltrúa. Þá sé heldur ekki búið að ganga frá greiðslum vegna frekari hönnunar. Félag múslima á Íslandi sé að yfirfara samninga.
Jafnframt fengust þær upplýsingar frá lögmanni Félags múslima á Íslandi að verkefnið sé ekki fullfjármagnað. Því sé ekki hægt að segja til um hvenær framkvæmdir hefjast. Það væri í raun ekkert að frétta.
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa samþykkt teikningar Gunnlaugs Stefáns Baldurssonar arkitekts að moskunni (sjá teikninguna hér fyrir ofan). Ítarlegri teikningar eru ekki tilbúnar til birtingar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag