Ekki hægt að setja hámark á hælisumsóknir

Þingmenn segja að það sé lögfræðilega ómögulegt að setja hámark á það hversu margir hælisleitendur koma til landsins á ári. Þó geti pólitíkin búið til umhverfi sem tryggir það að sem fæstir komi til landsins.

Þetta kemur fram í Dagmálum þar sem Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, ræddu um ýmis málefni.

Hægt að búa til umhverfi sem tryggir færri umsóknir

Finnst þér 2.000 hælisleitendur á ári vera of mikið?

„Varðandi töluna – mér finnst gott að koma inn á það – við getum ekki verið að stíla inn á eitthvað cap [hámark] hérna. „Nú mega bara ekki fleiri sækja um“. Fyrir það fyrsta þá er það lögfræðilegur ómöguleiki að koma í veg fyrir það að fleiri en x margir sæki um,“ segir Dagbjört.

Snorri Másson tekur undir orð Dagbjartar en segir að það sé pólitískur möguleiki að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að fækka hælisumsóknum.

Íslenskt lagaumhverfi veldur því að fleiri sækja um hæli hér

Dagbjört bendir að að mikið hafi verið gert á undanförnum árum til þess að afnema séríslenskar reglur og hún segir enn óljóst hvaða áhrif breytingar á útlendingalögum í vor munu hafa.

Þar að auki nefnir hún að enn sé fjöldi fólks sem komi frá Úkraínu.

„Það eru margir þættir sem má benda á sem eru í íslensku regluumhverfi sem leiðir til þess að þeir eru fleiri. Eins og þetta að við erum ekki með effektífa, skilvirka leið til þess að koma fólki sem er hér ólöglega úr landi. Það gengur mjög illa að mörgu leyti, sú framkvæmd. Ef að sú framkvæmd gengi betur þá væri það einfaldlega eitthvað sem spyrst út,“ segir Snorri og bætir við að Íslendingar þurfi að spyrja sig hvernig sé hægt að hafa algjöra stjórn á landamærum landsins.

Snorri og Dag­björt ræddu ýmis hita­mál á borð við út­lend­inga­mál, rétt­trúnað, stöðu vinst­ris­ins, um­hverf­is­mál og ný­legt bann Breta við veit­ingu kynþroska­bæl­andi lyfja til barna.

Áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins geta horft á þátt­inn í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert