Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) segir niðurstöðu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte um að engin viðbygging hafi verið í upphaflegri kostnaðaráætlun við byggingu knatthússins Skessunnar vera ranga, en framkvæmdir knatthússins fóru fram úr áætlun vegna viðbyggingarinnar samkvæmt skýrslu Deloitte.
Þá segir félagið einnig að aðkoma formanns félagsins, Viðars Halldórssonar, að framkvæmdunum sé eðlileg en hann fékk yfir 70 milljónir króna fyrir að stýra framkvæmdunum.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem FH hefur sent frá sér í kjölfar skýrslu Deloitte þar sem fram kemur að ónákvæmni og óskipulag hafi verið í bókhaldi íþróttafélagsins þegar kemur að byggingu Skessunnar.
Í yfirlýsingunni segir að fulltrúar íþróttafélagsins og Hafnarfjarðarbæjar vinni nú að því að ná samkomulagi um að Hafnarfjarðarbær kaupi eignarhlut FH í knatthúsinu og muni þar með eignast megnið af mannvirkjum FH í Kaplakrika.
„Ástæða kaupanna er nauðsynleg endurfjármögnun Skessunnar, sem var vígð 2019, þar sem þungur rekstur FH undanfarin ár stendur ekki undir vaxtabyrði og öðrum fjármagnskostnaði við bygginguna. Samningaviðræðurnar hafa staðið yfir með hléum síðan 2023, en FH býst við jákvæðri niðurstöðu á næstu dögum eða vikum.“
Segir í yfirlýsingunni að Hafnarfjarðarbær hafi fengið Deloitte til að gera tvær skýrslur í tilefni af samningaviðræðunum um kaupin.
Annars vegar hafi verið gerð fjármála- og áhrifagreining vegna Skessunnar og hins vegar úttekt á byggingar- og rekstrarkostnaði og meðferð fjármuna hjá FH á meðan framkvæmdum stóð.
„Tilgangurinn var að fá raunhæft verðmat á Skessunni og tryggja að góð vinnubrögð hafi verið viðhöfð við framkvæmdina. Gegnsæi ríkir í rekstri FH og Deloitte fékk fullan aðgang að bókhaldi félagsins við vinnslu skýrslunnar. Félagið sýndi mikinn samstarfsvilja gagnvart þessu verkefni. Einnig skal bent á að ársreikningar FH og starfseininga þess eru endurskoðaðir og aðgengilegir sem opinber gögn.“
Segir enn fremur í yfirlýsingunni að seinni skýrsla Deloitte sýni að byggingarkostnaður Skessunnar sé vel innan skekkjumarka miðað við kostnaðaráætlun, eða um 2,5-4%.
Einnig að samkvæmt Deloitte mynd uppreiknaður kostnaður FH við framkvæmdirnar nema 1.529 m.kr. miðað við verðlag í mars 2024 og að endurskoðunarfyrirtækið telji viðeigandi að Hafnarfjarðarbær myndi horfa til þess kaupverðs, í samræmi við raunkostnað framkvæmdarinnar.
Rétt er þó að benda á að samkvæmt seinni skýrslu Deloitte er raunkostnaður um 43% umfram upphaflega áætlun en telur fyrirtækið muninn þó 2,5-4% ef horft er á raunkostnað án viðbyggingar og án eignarfærslna vegna áætlaðra styrkja, gjafa og afslátta.
FH er þó ósammála þeirri ráðstöfun Deloitte og segir byggingu Skessunnar ekki hafa verið mögulega án styrkja, afslátta og samstarfssamninga við styrktaraðila félagsins í tengslum við bygginguna.
Þá segir einnig í tilkynningunni að í upphaflegri kostnaðaráætlun hafi verið viðbygging upp á 84 fermetra sem er á skjön við niðurstöðu Deloitte sem miðar við að engin viðbygging hafi verið í upphaflegri kostnaðaráætlun.
„Það er rangt þar sem við upprunalega kostnaðaráætlun bættist 216 fermetra stækkun á viðbyggingu. Sé það leiðrétt er raunbyggingarkostnaður Skessunnar 20% hærri en upprunalega var áætlaður. Sú hækkun á sér eðlilegar útskýringar vegna hækkunar á verðlagi yfir það 7 ára tímabil sem það tók að klára framkvæmdina.“
Þá segir félagið aðkomu formanns FH, Viðars Halldórssonar og bróður hans, Jóns Rúnars Halldórssonar, að framkvæmdunum hafa verið eðlilega.
„Í skýrslunum er bent á að formaður félagsins, Viðar Halldórsson, hafi fengið 72,8 milljónir króna fyrir að stýra byggingu knatthússins Skessunnar. Þessar greiðslur voru greiddar yfir 10 ára tímabil, frá 2015 þegar fyrstu teikningar af húsinu voru gerðar þar til 2024 þegar framkvæmdir við húsið kláruðust.
Einnig kemur fram að knatthús FH og ytra byrði þess eru keypt frá finnska fyrirtækinu Best Hall með milligöngu Jóns Rúnars Halldórssonar, bróður Viðars. Upphæðin sem FH greiddi til Best Hall fyrir ytra byrði og uppsetningu hússins var um fjórðungur byggingarkostnaðar hússins. Báðar staðreyndirnar eru vel þekktar og hafa legið fyrir um árabil. Hagkvæmnissjónarmið réðu för þegar þessi högun var ákveðin af félaginu.“
Þá segir að ekkert annað knatthús í fullri stærð á Íslandi hafi verið byggt á jafn hagkvæman hátt og Skessan og að lægsta tilboð sem hafi borist Hafnarfjarðarbæ í húsið á sínum tíma frá öðrum aðilum en FH hafi verið að núvirði 200 milljón krónum hærra en núvirtur raunbyggingarkostnaður hússins í bókum félagsins í dag.
Kemur fram í yfirlýsingunni að áætlað virði knattspyrnumannvirkja á umráðasvæði FH í Kaplakrika í dag sé um 3.200 milljónir króna og þar af eigi félagið sjálft um 2.000 milljónir króna.
„Til samanburðar má nefna að áætlað virði knattspyrnumannvirkja á umráðasvæði Hauka á Ásvöllum er í dag um 5.000 milljónir króna. Hafnarfjarðarbær á öll þau mannvirki. Þá má bæta við til upplýsinga að iðkendur knattspyrnu í FH eru í dag tæplega 1.200, en hjá Haukum eru þeir liðlega 600.“
Segir í yfirlýsingunni að bygging hinna þriggja knatthúsa FH í Kaplakrika sé stærsta einkaframkvæmd íþróttafélags í Íslandssögunni.
Mannvirkin hafi öll verið reist af hagkvæmni og litlum efnum og knúin áfram af þrautseigu félagsfólki í sjálfboðaliðastarfi með dyggum stuðningi velunnara og styrktaraðila félagsins.
„Þar var unnið þrekvirki við efnahagsaðstæður, sem meirihluta byggingartímans voru erfiðar í bæði sveitarfélaginu og þjóðfélaginu. Hafnfirðingar geta verið stoltir af afrakstrinum, enda um einstaka framkvæmd að ræða. Samstarf FH við Hafnarfjarðarbæ í þessu máli hefur verið farsælt og náið og félagið er þakklátt fyrir það bakland sem það hefur í sveitarfélaginu.“
Bent er á einnig að ef samkomulag næst á milli íþróttafélagsins og Hafnarfjarðarbæjar um kaup á Skessunni verði FH sjálfbært íþróttafélag sem starfi við fyrsta flokks aðstæður í hentugum og hagkvæmum mannvirkjum.
„Um land allt er það talin ákjósanleg högun að sveitarfélögin eigi íþróttamannvirki og sjái um viðhald þeirra meðan íþróttafélögin beri ábyrgð á daglegum rekstri og starfseminni eins og hún snýr að iðkendum. Mannvirkin í Kaplakrika hafa verið bylting í aðstöðusköpun fyrir FH og iðkendur þess með þeim árangri að FH er í dag eitt sigursælasta íþróttafélag landsins.“