Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu Símans um ógildingu 76,5 milljóna kr. stjórnvaldssektar sem fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (SÍ) hafði lagt á fyrirtækið eftir að það lét hjá líða að birta opinberlega innherjaupplýsingar sem tengdust sölumeðferð á Mílu, dótturfélagi fyrirtækisins, til Aridan France SA árið 2021.
Síminn höfðaði málið í janúar og var þess aðallega krafist að felld yrði úr gildi ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar SÍ frá 31. október 2023, sem tilkynnt var Símanum sama dag, um að fyrirtækið hefði brotið gegn áðurgildandi 1. mgr. 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti og 17. gr. MAR [reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) um markaðssvik], sbr. lög um aðgerðir gegn markaðssvikum, og Símanum gert að greiða 76.500.000 krónur í stjórnvaldssekt.
Jafnframt var þess krafist að íslenska ríkið myndi endurgreiða upphæðina með vöxtum.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær en var birtur í dag, að kjarni ágreinings málsaðila sé hvort innherjaupplýsingar í skilningi 120. gr. þágildandi laga hafi myndast 31. ágúst 2021 um sölumeðferð Mílu ehf., sem Símanum bar þá að birta opinberlega eða fresta birtingu á í samræmi við þágildandi ákvæði 122. gr. sömu laga.
Fram kom í ákvörðun SÍ að upplýsingarnar sem stofnunin taldi til innherjaupplýsinga hefðu verið skilgreindar þannig að þær hefðu myndast 31. ágúst 2021 með ákvörðun stjórnar Símans um að hefja seinni áfanga (e. „Round 2“) söluferlisins og bjóða fjórum aðilum, sem höfðu skilað inn óskuldbindandi tilboðum, að leggja fram skuldbindandi, fullfjármagnað og skilyrðislaust tilboð í allt hlutafé Mílu ehf. innan sjö vikna.
Í ákvörðun stjórnar Símans hefði meðal annars falist að opna gagnaherbergi til að framkvæma áreiðanleikakönnun og að veita aðilum aðgang að stjórnendum.
Ákvörðunin hefði verið tekin í kjölfar þess að í fyrri áfanga (e. „Round 1“) hefði 77 aðilum verið boðin þátttaka í ferlinu, 41 aðili fengið aukin gögn í kjölfar undirritunar trúnaðaryfirlýsingar og fjórir aðilar skilað inn óskuldbindandi tilboði í Mílu ehf. Það var mat SÍ að framangreind ákvörðun stjórnar Símans 31. ágúst 2021 hefði falið í sér atburð í þrepaskiptu ferli, sem væri nægjanlega tilgreindur, þar sem raunhæfar horfur hefðu verið á því að það markmið sem stefnt væri að, þ.e. salan á Mílu ehf., myndi eiga sér stað og að öðru leyti væru uppfyllt hugtaksskilyrði innherjaupplýsinga, að því er segir í dómi héraðsdóms.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri Seðlabanka Íslands og íslenska ríkið af kröfum Símans. Hann sagði að ákvörðun SÍ hefði verið rökstudd með fullnægjandi hætti og að hún hefði tekið mið af lögbundnum og málefnalegum sjónarmiðum.
„Eins og atvikum var háttað fellst dómurinn ekki á það með stefnanda að fjárhæð stjórnvaldssektarinnar hafi brotið í bága við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Hér ber einnig að hafa í huga að stefnandi lýsir sjálfur sölunni á Mílu ehf. þannig í stefnu að um hafi verið að ræða „ein stærstu viðskipti í sögu Íslands“. Undirstrikar þetta að mati dómsins alvarleika brotsins, en stefndi Seðlabanki Íslands hefur byggt á því í málinu að hann hafi við mat á alvarleika brotsins litið meðal annars til þess að upplýsingarnar sem um ræddi vörðuðu sölu á mjög stórri eign stefnanda og að slík sala myndi hafa í för með sér grundvallarbreytingar á umfangi, starfsemi og eðli stefnanda. Þessari ályktun téðs stefnda hefur stefnandi ekki hnekkt,“ segir í dómi héraðsdóms.