Reykjavíkurborg hefur kynnt áform um nýja íbúðabyggð við Safamýri, í nágrenni Miklubrautar.
Í daglegu tali hefur reiturinn verið kallaður Framsvæðið en Víkingur tók yfir íþróttastarfsemina þar þegar Framarar fluttu í Úlfarsárdal.
Svæðið er alls 3,8 hektarar að stærð. Gert ráð fyrir að um þriðjungur þess fari undir nýja íbúðabyggð. Reiknað með á bilinu 75 til 150 íbúðum á umræddri lóð.
Einhver bið verður á því að framkvæmdir geti hafist á svæðinu því Vegagerðin bendir á í umsögn að þær geti ekki hafist fyrr en búið verður að byggja göng undir Miklubrautina. Ein af lykilforsendum fyrir framkvæmdum við Miklubrautargöng sé að reiturinn í heild sé aðgengilegur sem athafnasvæði verktaka.
Þá bendir Vegagerðin enn fremur á að gera þarf ráð fyrir að þjónustugöng niður á Miklubrautargöng tengist við reitinn.
Deiliskipulagslýsing var kynnt í sumar og óskað eftir athugasemdum. Þar kemur fram að Reykjavíkurborg áformar að efna til hugmyndaleitar eða samkeppni sem felur í sér að deiliskipuleggja reitinn með sérlegri áherslu á vistvæna íbúðabyggð fyrir bíllausan lífsstíl og grænt útivistar- og leiksvæði fyrir hverfið.
Hanna skal og byggja vistvæna íbúðabyggð samkvæmt nýjustu faglegri þekkingu á vistvænum byggingaraðferðum og byggingarefnum, fyrir íbúa sem vilja tileinka sér vistvænan lífsstíl að meira marki en áður hefur tíðkast. Byggt verði á hringrásarhagkerfi, vistvænum samgöngumátum, heimaræktun matvæla og samfélagi íbúa.
Fram kemur í skipulagslýsingunni að lóðin er að stærstum hluta fyrrverandi fótboltavellir Fram, nú Víkings. Nyrst á lóðinni, að götu, er íþróttamiðstöð Fram, nú Víkings. Lóðamörk til vesturs liggja að Álftamýri og til norðurs að lóð Álftamýrarskóla. Til austurs liggja mörk lóðarinnar að lóð Félagsmiðstöðvarinnar Tónabæjar og til suðurs að borgarlandi við Miklubraut.
Samkvæmt gildandi aðalskipulagi verður íbúðabyggðin vestast á svæðinu, næst Álftamýri. Austari hlutinn verður opið grænt svæði.
Fram kemur í umsögn íþróttastjóra Víkings að sumarið 2024 fóru 94 keppnisleikir í fótbolta fram á Víkingsvelli í Safamýri, flesir á gervigrasinu. Þá gegni grassvæðið mikilvægu hlutverki fyrir æfingar yngri iðkenda.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag