Ónákvæmni og óskipulag í bókhaldinu hjá FH

Skýrsla, um úttekt á meðferð fjármuna og rekstri Skessunnar, var …
Skýrsla, um úttekt á meðferð fjármuna og rekstri Skessunnar, var unnin í framhaldi af fyrri skýrslu sem Deloitte vann fyrir Hafnarfjarðarbæ og skilað var 11. apríl 2024, um fjármála- og áhrifagreiningu vegna knatthússins Skessunnar. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte segir að ónákvæmni hafi gætt í skýrslu sem fyrirtækið vann fyrir Hafnarfjarðarbæ, þar sem farið var yfir framkvæmd úttektar á meðferð fjármuna Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH) á byggingartíma knatthúss í eigu félagsins, Skessunnar.

Skýrslan var afhent bæjarstjóra í lok júlí, en þar var farið yfir byggingakostnað Skessunnar, fjármögnun hennar og FH og rekstrarkostnað frá því húsið var tekið í notkun.

Í skýrslunni kemur fram að við skoðun á bókhaldi félagsins almennt þá telji Deloitte að ákveðins óskipulags hafi gætt í utanumhaldi bókhaldsins þar sem væri hægt að vanda betur til, sem ætti að auka skýrleika og möguleika á að nýta bókhaldið betur sem stjórntæki.

„Forsvarsmenn FH hafa ekki talið ástæðu til að greina kostnað niður á einstaka liði í samræmi við kostnaðaráætlun sem lá fyrir við upphaf framkvæmda og hefur bókhaldið því ekki verið fært sundurliðað á einstaka verkliði. Því er erfiðara að greina nákvæmlega hvað tilheyrir hverjum lið,“ segir m.a. í skýrslunni.

270 milljónir bókfærðar beint á bankareikninga

Þá segir að byggingarkostnaður Skessunnar hafi verið bókfærður á tvo eignalykla. Mótbókanir hafi verið að langmestu leyti á skuldunauta og lánardrottna eða um 74% færslna. Um 24% eða um 270 milljónir séu bókfærðar beint á bankareikninga, sem geri erfiðara um vik að rekja færslur.

„Texti við færslur er í langflestum tilvikum nafn seljanda, verktaka eða launþega en engin lýsing er á því hvað er verið að kaupa. Einnig eru tilvik um færslur með textalýsingum sem ekki eru réttar. Töluvert er af færslum milli aðalstjórnar og knattspyrnudeildar FH (KFH), bæði skuldunauta og lánardrottna. Hluti bókfærðs byggingarkostnaðar, sem gera má ráð fyrir að sé a.m.k. um 120-130 m.kr., er áætlaðir styrkir, afslættir og gjafir í formi vinnu eða efnis, fært til skuldar við knattspyrnudeild FH,“ segir í samantekinni.

Erfitt að nálgast rauntölur um rekstur hússins

Bent er á að bókhaldið hafi ekki verið aðgreint niður á rekstur einstakra eigna og því hafi verið erfitt að nálgast rauntölur um rekstur Skessunnar.

Þá segir að kostnaðaráætlun sem hafi legið til grundvallar í upphafi verkefnis hafi numið 790 milljónum. Forsvarsmenn FH telja áætlunina ekki áreiðanlega þar sem hún byggi á um 18 mánaða gömlum upplýsingum og fjárhæðir í áætluninni séu ekki vel ígrundaðar, eins og það er orðað í skýrslunni.

Ekki að öllu leyti sammála áliti FH

Deloitte kveðst ekki að öllu leyti sammála áliti FH varðandi upphaflega áætlun. Tekið er fram að byggingarkostnaður hafi staðið í rúmum 1.117 milljónum m.v. það sem fært hafi verið í bókhald aðalstjórnar FH til loka maí 2024.

Vitað hafi verið af viðbótarkostnaði, a.m.k. um 15 milljónum, sem bætist við og fari byggingarkostnaður þá í um 1.132 milljónir sem sé rúmum 342 milljónum eða 43% umfram upphaflega áætlun.

Deloitte telur þó kostnað umfram upphaflega áætlun vera einungis 2,5 - 4% ef raunkostnaður er án viðbyggingar, sem er um 192 m.kr. og án áætlaðra styrkja, gjafa og afslátta sem nema um 120 - 130 m.kr.,“ segir í skýrslunni.

Framkvæmdir fjármagnaðar að meirihluta með sölu eigna

Varðandi fjármögnun Skessunnar segir að byggingaframkvæmdir hafi verið fjármagnaðar að meirihluta með fjármagni af sölu eigna til Hafnarfjarðarbæjar fyrir 790 milljónir að frádregnum 214 milljóna skuldum sem hafi verið áhvílandi á eignunum. Því til viðbótar hafi verið tekin skammtímalán, lán hjá lánastofnunum, einstaklingum og lánardrottnum.

Þá segir, að í apríl 2021 hafi verið tekin tvö ný lán, 310 milljónir hvort, til að greiða upp bæði langtíma- og skammtímalán.

„Deloitte lítur þannig á að nettó lántökur vegna Skessunnar liggi í mismun á byggingarkostnaði, 1.117 m.kr., að frádreginni greiðslu frá HFJ, 790 m.kr., vegna framkvæmdanna eða sem samsvarar um 327 m.kr. Auk þess teljist til fjármögnunar á Skessunni áhvílandi skuldir á eignum sem voru seldar til HFJ eða 214 m.kr. Skuldir sem tengjast Skessunni námu um 318 m.kr. við endurfjármögnun í apríl 2021, en heildarlántaka er um 542 m.kr.

Þrátt fyrir framangreint telur Deloitte að skoða þurfi hvort einhver hluti af eignfærðum byggingarkostnaði í formi áætlaðra styrkja, gjafa og afslátta, teljist í raun til byggingarkostnaðar og þ.a.l. ekki sem hluti af fjármögnun Skessunnar,“ segir í skýrslunni.

Ekki haldið sérstaklega um rekstur Skessunnar

Hvað varðar rekstur Skessunnar, þá kemur fram að það liggi fyrir samningur á milli FH og Hafnarfjarðar um rekstur Skessunnar sem byggi á áætlun FH. Rekstrarkostnaður sé þar áætlaður 44,1 milljón, sem skiptist í rekstur 25,6 milljónir og launakostnað 18,5 milljónir.

Til viðbótar þessu sé gert ráð fyrir umfangsmeira viðhaldi upp á 14,8 milljónir sem yrði greitt sérstaklega af Hafnarfirði.

„Ekki er haldið sérstaklega utan um rekstur Skessunnar í bókhaldi FH og því erfitt að nálgast raunkostnað. Rekstrarkostnaður mannvirkja, fyrir utan laun, hefur verið að meðaltali um 60 m.kr. á ári frá árinu 2018. Undir rekstur mannvirkja falla fimm megin fasteignir, auk vallarsvæða. Samkvæmt áætlun um rekstur Skessunnar nemur sá kostnaður rúmum 40% af rekstrarkostnaði mannvirkja,“ segir í samantekt Deloitte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert