„Um er að ræða svik og pretti“

SVEIT og Efling senda frá sér tilkynningar á víxl, vegna …
SVEIT og Efling senda frá sér tilkynningar á víxl, vegna kjarasamnings við Virðingu. Samsett mynd

Efling segir Samtök fyrirtækja í veitingarekstri (SVEIT) geta sjálfum sér kennt um að kjarasamningur samtakanna við stéttarfélagið Virðingu, hafi verið gerður tortryggilegur. 

Þar sé að finna fjölmörg alvarleg brot gegn ákvæðum íslenskra laga um lágmarksréttindi fólks á vinnumarkaði, að segir í tilkynningu frá Eflingu. Jafnframt er bent á að SVEIT hafi viðurkennt alvarlega ágalla samningsins og samtökin hafi verið nauðbeygð til að endurskoða hann.

Með tilkynningunni er Efling að bregðast við tilkynningu sem SVEIT sendi frá sér í gær, þar sem samtökin sökuðu Eflingu notast við hótanir og ósannindi í þeim tilgangi að hindra viðsemjendur veitingageirans í að semja sín á milli án þeirra milligöngu.

Dagvinnulaun lækki í raun

Í tilkynningu SVEIT kom fram að umræddur kjarasamningur miðaði að því að styrkja l dagvinnu á kostnað lausafólks.

Efling segir þetta hins vegar ósannindi og bendir að samkvæmt samningnum fari grunnlaun lækkandi á samningstímanum og verði 6 prósent lægri en taxtar Eflingar við lok samningstíma.

Þá sé dagvinnutímabil í samningi við Virðingar lengt um þrjá klukkutíma á virkum dögum og látið ná yfir laugardaga. Sem myndi leiða til 10 prósent lækkunar á heildarlaunum fullvinnandi einstaklings.

Segja fólk sitja beggja vegna borðsins

Efling hefur líka gagnrýnt að stéttarfélagið Virðing sé í raun stofnað af forsvarsmönnum SVEIT, en samtökin segjast ekki að neinu leyti hafa komið að stofnun stéttarfélagsins.

Í tilkynningu sinni telur Efling hins vegar upp fólk sem hefur sem hefur setið beggja vegna borðsins en bendir jafnframt á að nöfn einhverja stjórnarmanna hafi verið tekin út nýlega.

„Svokallaður „kjarasamningur“ milli Virðingar og SVEIT á því ekkert skylt við réttnefnda kjarasamninga, þar sem fulltrúar verkafólks og atvinnurekanda gæta hvor sinna hagsmuna. Um er að ræða svik og pretti þar sem hópur atvinnurekanda semur við sjálfan sig um kjör starfsfólks, með milligöngu gervistéttarfélags þar sem þeir sjálfir sitja í stjórn ásamt mökum sínum og börnum.“

Flest fyrirtæki vilja fylgja samningi Eflingar

Þá segir Efling að úrsögnum fyrirtækja úr SVEIT rigni inn, en nú þegar hafi 38 fyrirtæki lýst því yfir að þau hafi sagt sig úr samtökunum eða séu í úrsagnarferli.

Í síðustu viku sendi Efling erindi til forsvarsmanna veitingastaða sem eru aðilar að SVEIT og greindi frá þeim aðgerðum sem gripið yrði til vegna kjarasamnings Virðingar. Viðbrögð hafa nú borist frá 87 af 123 og þar af hafa 82 lýst yfir að þau muni fylgja kjarasamningi Eflingar.

„Efling lýstir mikilli ánægju með jákvæð viðbrögð veitingamanna við erindum félagsins, þar sem fram hefur komið með skýrum hætti að meirihluti þeirra hyggjast virða lög, reglu og heiðarlega framgöngu á íslenskum vinnumarkaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert