Embætti ríkislögreglustjóra kom að nýlegu átaki Europol, löggæslustofnunar Evrópusambandsins, gegn hatursorðræðu á netinu og voru sendar inn ábendingar um síður þar sem grunur var um slíkt.
Fram kemur í tilkynningu á vef Europol að stofnunin hafi stutt 18 evrópsk lögregluembætti í átaki gegn hatursorðræðu sem beindist gegn þjóðernis- og trúarhópum.
Spænsk og ungversk lögregluyfirvöld leiddu átakið, sem skilaði meira magni efnis í einni atrennu en nokkurn tíma áður.
Tólf ríki tóku þátt í átakinu þar sem safnað var yfir 6.350 hlekkjum á 46 síður á samfélagmiðlum og 20 vefsíður þar sem hvatt var til ofbeldis eða hatursorðræða viðhöfð í garð þjóðernis- eða trúarhópa.
Þar á meðal var efni dreift af samtökum, hópum og einstaklingum sem innihélt ólöglega hatursorðræðu gegn gyðingum, auk efnis þar sem hvatt var til eða kallað eftir ofbeldi eða hryðjuverkaárásum á þjóðernis- og trúarhópa.
Fram kemur í tilkynningunni að lögregluyfirvöld hafi greint aukna skautun í umræðu á netinu, sérstaklega eftir 7. október 2023.
Þá er bent á mikilvægi samstarfs við netþjónustufyrirtæki og hýsingaraðila, þegar kemur að baráttunni gegn hatursorðræðu og ólöglegu efni á netinu. Það sé markmið Europol að styrkja átakið enn frekar með því að leiða saman viðeigandi aðila þvert á landamæri í sameiginlegum aðgerðum. Lykilatriði sé að fá einnig einkafyrirtæki til samstarfs.