Vilja fá „ítarlegri svör við ýmsum þáttum“

Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir bæjarstjórnina hafa sent spurningarlista …
Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir bæjarstjórnina hafa sent spurningarlista til FH til að fá nánari svör um ýmsa þætti varðandi framkvæmdir á knatthúsinu Skessunni. Samsett mynd mbl.is/aðsend mbl.is/Sævar Breki Einarsson

„Skýrslan kemur og það voru í henni ákveðnir þættir sem við vildum fá nánari svör við og höfum nú sent á aðalstjórn FH spurningar sem við vildum fá svör við vegna þessarar skýrslu,“ segir Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, um skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte varðandi framkvæmd úttektar á meðferð fjármuna Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH) á byggingartíma knatthúss í eigu félagsins, Skessunnar.

Greint var frá í dag að það væri mat fyrirtækisins að ónákvæmni og óskipulag hafi verið í bókhaldi íþróttafélagsins þegar kom að byggingu Skessunnar.

Í samtali við mbl.is segir Valdimar aðdraganda málsins hafa verið að FH leitaði til Hafnarfjarðarbæjar um væntanleg kaup á knatthúsinu og þá hafi bærinn viljað fá að skoða nánar byggingarkostnað og fleira til þess að geta fundið verð á húsinu.

Þá nefnir hann að í flestum sveitarfélögum sé það svo að bærinn eigi húsnæðið og geri svo rekstrarsamning við íþróttafélögin.

„Þetta var bara liður í því að taka það samtal en auðvitað fyrr en við kannski áætluðum af því að staðan, eins og allir þekkja, er búin að vera að það er hátt vaxtastig og það er verið að sliga íþróttafélög sem og aðra.“

Spurt um greiðslur til formannsins

Hann segir skýrsluna hafa svo komið og þar hafi verið að finna ákveðna þætti sem bærinn vildi fá nánari upplýsingar um.

„Það voru svona viðbrögðin okkar að reyna að fá ítarlegri svör við ýmsum þáttum sem koma þar fram.“

Hann segir spurningarlista hafa verið sendan á aðalstjórn FH og játar hann því að þar sé meðal annars leitast eftir nánari útskýringum varðandi byggingarkostnað framkvæmdanna og um greiðslur til formanns FH, Viðars Halldórssonar, en hann fékk yfir 70 milljónir fyrir að stýra framkvæmdunum.

Skýrslan til umfjöllunar áður

Skýrslan var afhent bæjarstjóra í lok júlí og á vef Hafnarfjarðarbæjar má sjá að hún var til umræðu á bæjarstjórnarfundi þann 12. desember.

Valdimar nefnir þó að skýrslan sé búin að vera til umfjöllunar áður og að bæjarstjórnin sé búin að fara yfir hlutina bæði með Deloitte og í samtölum við FH sem hluta af vinnuferli stjórnarinnar.

„Það er ekkert verið að reyna að leyna einu né neinu. Við vorum bara að reyna að vinna forvinnuna hjá okkur, kafa aðeins ofan í skýrsluna og fá svona betri upplýsingar frá þeim sem gerðu úttektina og svo framvegis. Þannig hún er búin að vera til umfjöllunar í bæjarráði oftar en þetta í haust.“

Drög um kaup á knatthúsinu liggja fyrir

Á vef Hafnarfjarðarbæjar má sjá að á bæjarráðsfundinum hafi verið kynnt drög að samkomulagi við aðalstjórn FH um kaup á knatthúsinu Skessunni og að bæjarráð hafi tekið jákvætt í drögin en Valdimar getur þó ekki tjáð sig neitt frekar um áframhald þess máls.

„Við erum ekki búin að klára það. Ég get ekki tjáð mig neitt um það fyrr en það er búið að leggja það allt á borðið með hlutaðeigandi aðilum.“

FH svarað að hluta 

Hann segir þó að samhljómur sé kominn í bæjarráð um framhaldið.

„Við erum auðvitað að reyna að gera þetta vel og vandlega og með sanngjörnum hætti bæði náttúrulega fyrir alla íbúa Hafnarfjarðar og auðvitað gagnvart iðkendum FH og svo framvegis.“

Aðspurður segir hann FH hafa nú þegar svarað einhverjum þeirra spurninga sem Hafnarfjarðarbær vildi fá nánari svör við.

„Við erum bara á þeim stað núna að vinna þetta innan kerfisins hjá okkur og í samvinnu við aðalstjórn.“

mbl.is hefur óskað eftir spurningarlista Hafnarfjarðar og þeim svörum sem hafa borist frá FH vegna skýrslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert