Annað gos gæti brotist út í febrúar

Frá Svartsengi.
Frá Svartsengi. mbl.is/Hörður Kristleifsson

Landris í Svartsengi hefur verið stöðugt eftir að sjöunda eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni lauk þann níunda þessa mánaðar. Ekki sjáist merki um að eldgosahrinunni sé að ljúka.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir að landrisið sé sambærilegt og eftir síðustu gos og ef fram heldur sem horfir gæti brotist út enn eitt eldgosið í febrúar. Landrisið bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi sé hafin á ný.

Held að við verðum með þetta í gangi næstu mánuði

„Það er of snemmt að segja til um einhverjar nákvæmar tímasetningar og maður hefur þær í raun aldrei en fljótlega eftir mánaðamótin janúar-febrúar þá ætti staðan er verða orðin svipuð og fyrir síðasta gos,“ segir Benedikt.

Hann kveðst ekki geta útilokað að síðasta gosinu sé lokið en það séu enn ekki farin að sjást merki um að eldgosahrinunni á Sundhnúkagígaröðinni sé að ljúka.

„Við erum kannski ekki að búast við einhverjum áratugum til viðbótar en ég held að við verðum með þetta í gangi næstu mánuðina. Ég held að allt stefni í það,“ segir hann.

Óvænt gos

Eldgosið sem hófst að kvöldi 20. nóvember og stóð yfir í 18 daga var annað stærsta gosið að flatarmáli á Sundhnúkagígaröðinni af þeim sjö sem hafa orðið frá desember 2023. Það braust út með skömmum fyrirvara.

„Það kom óvænt og fór af stað áður en við vorum farin að sjá skjálftamerki en vissulega var rúmmálið komið á svipaðan stað og fyrir gosið þar á undan. Við höfum yfirleitt verið að sjá skjálftavirkni aukast aðeins nokkrum vikur áður en hún var ekkert farin að aukast að viti,“ segir Benedikt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert