Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands (BÍ) segir að blaðamaðurinn Stefán Einar Stefánsson, stjórnandi Spursmála Morgunblaðsins, hafi ekki brotið gegn siðareglum félagsins með ummælum sem hann lét falla í þætti 22. október.
Fram kemur úrskurði siðanefndarinnar, að í þættinum hafi Stefán Einar fjallað um þátttöku Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur, sem er kærandi í málinu, í handritshöfundateymi Áramótaskaups RÚV og sagt hana hafa hvatt til eignaspjalla á utanríkisráðuneytinu og vonast til að þessar „brjáluðu hugmyndir“ yrðu ekki í skaupinu þetta árið.
Segir í kærunni að ummælin hafi fallið í inngangi þáttarins sem nefnist „Af vettvangi fjölmiðla“. Taldi Salvör umfjöllunina varða við 2., 6. og 7. grein siðareglna. Hún sagði að þetta væri tilhæfulaus og alvarleg ásökun.
„Staðhæfing um að hún lýsi yfir sorg yfir falli Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas, sé ekki byggð á neinum heimildum eða staðreyndum. Með ummælum sínum vegi Stefán Einar að starfsheiðri og æru hennar og geri henni upp skoðanir og hvatningu til eingarspjalla, líklega til að grafa undan trúverðugleika hennar sem höfundar að áramótaskaupi RÚV. Með þessu telur kærandi að kærði hafi brotið gegn 2., 6. og 7. gr. siðareglna BÍ,“ segir í úrskurðinum.
Í úrskurði BÍ segir að engin andsvör hafi borist frá Stefáni Einari en hann benti á í yfirlýsingu að nefndin hefði enga lögsögu yfir honum.
Siðanefndin segir að aðild að BÍ sé engin forsenda þess að nefndin úrskurði í málum sem þessu og ótal fordæmi séu þess sem spanni marga áratugi.
Í færslu á Facebook segir Stefán að ástæða þess að hann telji nefndina ekki hafa lögsögu í málinu sé að hann sé ekki félagi í Blaðamannafélagi Íslands. Því geti hann ekki talist undir siðareglur félagsins settur.
Þá telur nefndin augljóst að þessi inngangur „Af vettvangi fjölmiðla“ sé afmarkað ritstjórnarefni sem falli undir tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifi undir fullu nafni þar sem persónulegar skoðanir höfunda séu í fyrirrúmi.
„Siðanefndin getur ekki fallist á það með kæranda að ummælin brjóti gegn 2.- og 6. gr. siðareglnanna. Í 7. gr. þeirra er mælt fyrir um að blaðamaður gæti þess að geta heimilda þegar vitnað er til ummæla eða upplýsinga sem birst hafa opinberlega. Að mati siðanefndar hafa blaðamenn meira frjálsræði í þeim efnum þegar um er að ræða persónulegar skoðanir hans. Að sama skapi geta kröfurnar verið mismiklar eftir birtingarformi ummæla eða umfjöllunar. Í ljósi þess telur nefndin að ekki sé um brot á 7. gr. að ræða,, og þá er ekki unnt að heimfæra umfjöllunina undir brot gegn öðrum greinum reglnanna,“ segir í úrskurðinum.
Einn nefndarmanna var ósammála meirihluta nefndarinnar í formþætti málsins og taldi að kæran væri ekki tæk til efnismeðferðar með vísan til frávísunarúrskurða í tíð eldri siðareglna.
En í ljósi þess að meirihluti nefndarinnar taldi málið tækt til meðferðar, lýsti hann sig sammála niðurstöðunni í efnisþætti málsins.