Formaður félags leikskólakennara segir að einkafyrirtæki sem hyggist opna leikskóla verði í sömu vandræðum og aðrir með að ráða til sín faglært starfsfólk. En mönnunarvandi og skortur á leikskólakennurum er ein helsta ástæðan fyrir löngum biðlistum barna á leikskóla.
Alvotech og Arion banki hafa greint frá því að fyrirtækin hyggist koma á fót leikskólum fyrir börn starfsfólks. Arion banki ríður á vaðið, en opna á leikskóla fyrir börn á aldrinum 12 til 24 mánaða strax á næsta ári. Til að byrja með verður boðið upp á pláss fyrir 10 börn.
Áform Alvotech eru aðeins umfangsmeiri en undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um uppbyggingu og starfsrækslu allt að þriggja nýrra leikskóla sem eiga að vera komnir í rekstur á næstu þremur til fimm árum. Fyrirtækin hafa þó ekki sett fram hugmyndir um hvernig þau hyggist komast fyrir mönnunarvanda, sem margir leikskólar glíma við.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, bendir á að sjálfstætt starfandi leikskólum hafi gengið verr að laða til sín faglært starfsfólk en þeim sem sveitarfélögin reki. Hlutfall kennara með leyfisbréf í þeim fyrrnefndu er ekki nema 18 prósent, á meðan hlutfallið er 26 prósent í þeim síðarnefndu. Þá fái starfsfólk í einkareknum leikskólum ekki greidd hærri laun.
„Það verður ekkert öðruvísi ef það verður af þessu hjá Alvotech og Arion banka. Vandinn er bara þessi skortur á kennurum og hvorki Alvotech né Arion banki munu ná að framleiða kennara á örskotsstundu. Það er langtímavandamál,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.
„Það sem við höfum verið að tala fyrir er að horfa á þetta til lengri tíma með skynsamari hætti. Kerfið hefur þróast mjög hratt og við ráðum ekki við þessa stækkun. Við þurfum að ná nýliðun kennara á flug áður en við ráðumst í það verkefni að brúa bilið á milli leikskóla og fæðingarorlofs með leikskólum.“
Lengra fæðingarorlof sé eina raunhæfa lausnin til að brúa bilið eins og staðan sé í dag. Það þurfi að hægja á vextinum á meðan verið sé að byggja upp leikskólakerfið.
„Við höfum verið sammála um það hingað til að leikskólakerfið eigi að vera á samfélagslegum grunni eins og grunnskólakerfið, en ekki rekið af einkafyrirtækjum. Það er alveg efnislegur munur á sjálfstætt starfandi skóla og leikskóla reknum af einkafyrirtæki.“
Haraldur segir að kollegar hans í öðrum löndum, sem hafi reynslu af þessu fyrirkomulagi, segi að leikskólar sem reknir eru af einkafyrirtækjum leiði alltaf á endanum til félagslegrar mismununar. Sama hve góður hugur sé að baki.
Hann bendir á að starfsmannavelta ófagslærð starfsfólks á leikskólum sé miklu meiri en fagmenntaðra og lausnin sé því alltaf að fjölga kennurum.
„Hvernig gerum við það hraðar? Launin þurfa að vera samkeppnishæf við aðra sérfræðinga á markaði. Það er það sem við höfum verið að berjast fyrir í þessum kjaraviðræðum, meðal annars með verkföllum sem við frestuðum fyrir stuttu og sitjum við kjarasamningsborðið núna. Þar höfum við ekki fundið fyrir þessum mikla vilja til þess að fara í þau verkefni sem þarf til að fjölga kennurum á leikskólastiginu.”
Haraldur bendir á að við það borð sitji meðal annars einstaklingar í umboði Einars Þorsteinssonar borgarstjóra, sem raunverulega geti fjölgað leikskólakennurum. En kvarti á sama tíma yfir því að það fáist ekki leikskólakennarar
„Ef menn ætla ekki taka ábyrgð heldur vísa henni eitthvað annað, þá er ekki von á góðu. Þá náum við aldrei þessu sameiginlega markmiði okkar,“ segir hann.
„Við finnum ekki við borðið að Einar Þorsteinsson, eða aðrir bæjarstjórar sem veita þetta umboð, séu að koma með fullan poka af prósentum inn í það verkefni að jafna laun á milli markaða. Við finnum það ekki enn í dag, en hvort sá poki er á leiðinni, ég ætla ekki að útiloka það, en ég finn það ekki í dag og mér finnst það skrýtið.“
Haraldur segir að árum saman hafi metfjöldi innritast í leikskólakennaranám, en það dugi ekki til.
„Þegar þú ert alltaf að stækka kerfið og taka inn yngri og yngri börn þá hlutfallslega fjölgar ekki kennurum og þá ertu alltaf að setja þrýsting á kerfi sem nær aldrei jafnvægi,“ útskýrir hann.
„Hlutfallslega frá árinu 2013 hefur kennurum með réttindi fækkað um tíu prósent og það er bara út af vexti kerfisins.“