„Það gengur ekki að neytendur þurfi alltaf að bera hitann og þungann af öllum hækkunum sem verða,“ segir Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir verslanir yfirfæra ábyrgð með spám um að nauðsynjavörur hækki um áramót í ljósi þess að það hafi hvergi komið fram. Þetta séu einungis tilkynningar verslana um að slíkt sé í farvatninu sem um leið „ýtir undir þá tilfinningu að það sé bara í lagi að hækka vöruverð, sem er grafalvarlegt“. Þá segir hann eðlilegt að milliliðir svari því til hvaða ráðstafana þeir ætli að grípa til þess að koma í veg fyrir að þessar verðhækkanir fari út í verðlagið, og hvetur forsvarsmenn verslana til að leita allra leiða.
Þá bendir Breki á að engin umræða sé um slíkar verðhækkanir erlendis. Til að mynda hafi matvöruverð einungis hækkað um 0,3% í Danmörku, „þar eru engar verslanir að hóta því að verð muni hækka um áramótin“.
Hann segir það hljóta að vera eitt af stærri verkefnum nýrrar ríkisstjórnar að taka á verðhækkunum og efla samkeppni á Íslandi, rífa niður tollmúra og ganga í beinan stuðning við bændur frekar en stuðning við milliliðina eins og nú er.
„Við þurfum á Íslandi að efla samkeppni til þess að ekki sé komist upp með það að tilkynna bara nýtt verð. Þetta er eins og í gamla daga þegar það var verðlagsráð og það tilkynnti verðið á morgun.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag